Tryggvi Hrafn Haraldsson í þann mund að sleppa í gegn. Ljósm. gbh.

Veðurguðirnir áhrifamiklir í jafntefli Skagamanna

 

Það var rok og rigning á Akranesi í gærkvöldi þegar ÍA og KR mættust í 14. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu. Árni Snær Ólafsson sneri aftur í mark Skagamanna, en hann hefur ekki leikið með liðinu níu mánuði, eða síðan hann sleit krossband í æfingaleik vetur. Garðar Gunnlaugsson var sömuleiðis í byrjunarliðinu, en hann hefur glímt við þrálát meiðsli í allt sumar.

Skagamenn mættu ákveðnir og skipulagðir til leiks og voru mun sterkari allan fyrri hálfleikinn. Þeir voru líklegir á upphafsmínútunum og litlu munaði að þeir kæmust yfir eftir rúmlega 20 mínútna leik. Þórður Þorsteinn Þórðarson átti þá fasta lága fyrirgjöf frá hægri kanti. Garðar teygði sig í boltann hvað mest hann mátti en rétt missti af honum við markteigslínuna. Sjóngóðir áhorfendur mátu það svo að um það bil sentímetri hafi skilið á milli boltans og táar Garðars. Skagamenn sem sagt ansi nálægt því að komast yfir.

Skömmu síðar fengu KR-ingar sitt fyrsta og eina almennilega færi í fyrri hálfleik. Eftir langa sókn sem endaði með fyrirgjöf frá hægri fékk Kennie Chopart boltann í teignum. Hann sneri baki í markið en náði að snúa í teignum og skaut en rétt framhjá.

Skagamenn létu góða marktilraun gestanna ekki slá sig út af laginu, voru áfram sterkari og komust yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks. Árni Snær átti þá langa aukaspyrnu frá eigin vallarhelmingi. KR-ingum reyndist erfitt að ráða við svif boltans í vindinum og mistókst að koma honum frá. Boltinn hrökk þess í stað af varnarmanni og inn í teig fyrir fætur Ólafs Vals Valdimarssonar sem skoraði snyrtilega framhjá Beiti Ólafssyni í marki KR-inga. Skagamenn því 1-0 yfir í hálfleik.

 

Aftur lék vindurinn stóra rullu

Jafnræði var með liðunum eftir hléið og mikil barátta einkenndi leikinn. Hvorugu liði tókst að skapa sér dauðafæri framan af síðari hálfleiknum en það átti eftir að breytast. Á 65. mínútu stóð KR-ingur einn á auðum sjó í vítateig ÍA eftir fyrirgjöf en færið rann út í sandinn. Skagamenn fóru beint í sókn og Þórður Þorsteinn slapp einn inn fyrir vörnina en Beitir varði frá honum. Boltinn barst fyrir fætur Tryggva Hrafns Haraldssonar sem skaut að marki en aftur varði Beitir. Beitir bjargvættur var aftur á ferðinni skömmu síðar þegar Garðar átti frábæra stungusendingu inn fyrir vörn KR. Beitir kom á fleygiferð út úr markinu og rétt náði til boltans á undan Tryggva.

Síðustu 20 mínútur leiksins þyngdist sókn KR-inga jafnt og þétt en Skagamenn féllu meira til baka. Gestirnir áttu þó erfitt uppdráttar að skapa sér ákjósanleg færi en mark skoruðu þeir engu að síður. Á 87. mínútu átti Óskar Örn aukaspyrnu skammt innan við miðju. Boltinn barst með vindinum inn í teiginn, yfir varnarmenn ÍA og sóknarmenn KR áður en hann skoppaði af blautu grasinu og beint upp í þaknetið. KR-ingar búnir að jafna og aftur má segja að veðurguðirnir hafi haft sitt að segja um markaskorun í leiknum.

Á lokamínútu leiksins vildu Skagamenn fá vítaspyrnu þegar fyrirgjöf virtist hafna í hönd KR-ings innan teigs en ekkert dæmt. Gestirnir voru síðan æfir þegar mark var dæmt af þeim í uppbótartíma en brot var dæmt á þá og markið því flautað af. Því fór sem fór og 1-1 jafntefli staðreynd við erfiðar aðstæður á Akranesi.

Úrslit leiksins gera það verkum að Skagamenn sitja enn á botni deildarinnar. Þeir hafa tíu stig, þremur minna en ÍBV og Víkingur Ó. í sætunum fyrir ofan, en síðarnefnda liðið á leik til góða í kvöld.

Næst leikur ÍA á mánudaginn, 14. ágúst næstkomandi, þegar liðið heimsækir nýliða Grindavíkur suður með sjó. Sá leikur hefst kl. 18:00.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir