Listahátíðin Plan B verður haldin um helgina

Blásið verður öðru sinni til listahátíðarinnar Plan B í Borgarnesi dagana 11.-13. ágúst næstkomandi. Skessuhorn ræddi við Sigríði Þóru Óðinsdóttur, eða Sigþóru eins og hún er oftast kölluð. Hún er myndlistarkona og einn af skipuleggjendum Plan B að þessu sinni. Sigþóra segir að hátíðin verði haldin eftir sama formi og á síðasta ári þegar hún fór fyrst fram. „Sýningarrýmin í Borgarnesi verða opnuð á föstudeginum og síðan verður gjörningakvöld í fjósinu í Einarsnesi á laugardagskvöld. Sýningarnar í Borgarnesi munu standa gestum opnar yfir helgina,“ segir hún. „Það er síðan ákveðin starsfsemi í gangi núna í aðdraganad hátíðarinnar. Vinnuaðasta opnaði á mánudaginn síðasta í Valfelli og listamennirnir geta gist í bíl sem þeir hjá Borgarverki voru svo yndælir að lána okkur til að hýsa þátttakendurna. Listamennirnir hafa því aðstöðu til að vinna að sínum verkum en líka tækifæri til að njóta þess að dvelja í Borgarbyggð,“ segir Sigþóra. „Nú þegar eru nokkrir listamenn komnir á svæðið og ég á von á að fjölga muni í hópnum eftir því sem nær líður hátíðinni,“ bætir hún við.

 

Alþjóðleg listahátíð

Hópurinn sem skipuleggur og heldur utan um Plan B er skipaður ungu listhneigðu fólki úr Borgarnesi og Borgarfirði. Sigþóra er sem fyrr segir frá Einarsnesi, myndlistarkona og verkefnisstýra. Auk hennar skipuleggja hátíðina Inga Björk Bjarnadóttir, listfræðingur úr Borgarnesi, Sigursteinn Sigurðsson, arkitekt í Borgarnesi og Logi Bjarnason, myndlistamaður frá Borgarnesi. Auk þess hefur Birkir Karlsson, listfræðingur frá Reykholtsdal, verið þeim innan handar í aðdraganda hátíðarinnar.

Skipuleggjendur taka allir þátt í sýningum hátíðarinnar, en auk þeirra verða verk fjölmargra annarra til sýnis. „Við völdum að þessu sinni 18 listamenn, innlenda sem erlenda, úr stórum hópi umsækjenda til að taka þátt í hátínni í ár og sýna verk sín. Flestir þeirra munu koma og dvelja eitthvað hér í Borgarbyggð á meðan hátíðinni stendur þó ekki hafi allir tök á að koma,“ segir Sigþóra.

 

Grímshús spennandi sýningarrými

Sýningarstaðirnir eru að hluta til þeir sömu og í fyrra. „Það er svo skemmtilegt hvað svona verkefni er lífrænt og flæðandi. Öll sýningarrýmin eru lánsrými og þá er ekkert fast í hendi. Við verðum aftur á Sögulofti Landnámssetursins, en Landnámssetrið er jafnframt einn af aðal styrktaraðilum hátíðarinnar. Gjörninakvöldið verður í fjósinu í Einarsnesi eins og í fyrra. En síðan verðum við á tveimur nýjum stöðum. Við fengum afnot af Grímshúsi í Brákarey og það er ofboðslega spennandi rými, sérstaklega á þessu stigi framkvæmda. Búið er að klæða húsið að utan en að innan er það eins og auður strigi, hrá steypa og mjög spennandi að vinna inn í. Svo fengum við líka inn í gúanóinu í Brákarey, sem er á vegum Fornbílafjelags Borgarfjarðar. Þeir voru svo frábærir að lána okkur þetta pláss fyrir listasýningu,“ segir Sigþóra ánægð.

 

Nánar í Skessuhorni sem kom út sl. miðvikudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir