Fjögurhundruð skátar sælir og glaðir með dvölina á Akranesi

Frá þriðjudegi til laugardags í síðustu viku voru staddir á Akranesi fjögur hundruð skátar. Ástæðan var sú að hér á landi fór fram eitt stærsta skátamót heims, World Scout Moot, en alls komu til landsins um 5.500 skátar á aldrinum 18-25 ára frá öllum heimshornum. Á Akranesi var komið upp tjaldbúðum á efri hluta tjaldsvæðisins í Kalmansvík þar sem skátarnir dvöldu.

Þétt dagskrá var fyrir skátana á Akranesi og má þar nefna; ferð á Akrafjall, kajakferð við Langasand, dagsferð um Borgarfjörð, jóga í Skógræktinni og margt fleira. Bergný Dögg Sophusdóttir hjá Skátafélagi Akraness er ein af þeim sem tók á móti skátahópnum. Hún segir allt hafa gengið mjög vel fyrir sig. „Það má segja að allt hafi gengið framar vonum. Víða annars staðar sem skátar dvöldu voru tjöld að fjúka vegna hvassviðris en hér á Akranesi fengum við frábært veður. Það var gaman að sjá þegar skátarnir voru að koma sér fyrir á tjaldsvæðinu þá gengu margir strax út á klettana og virtu fyrir sér sólarlagið og Snæfellsjökul. Það er margt sem manni finnst sjálfsagt eftir að hafa búið hér í öll þessi ár en skátunum fannst stórmerkilegt,“ segir Bergný.

Allir skátarnir sem dvöldu á Akranesi þurftu að skila vinnu fyrir Akraneskaupstað sem samsvaraði hálfum vinnudegi. Störfin fólust m.a. í að tína rusl úr fjörunni, slá og mála í bænum og voru þau störf unnin á milli þess sem skátarnir voru í formlegri dagskrá. „Öll dagskrá gekk vel fyrir sig og skátarnir skemmtu sér vel. Vikan var í heild bara æðislega skemmtileg og mynduðust mörg vinatengsl á þessum stutta tíma. Maður á heimboð alls staðar í heiminum núna, meira að segja í Ástralíu,“ segir Bergný kát í bragði eftir vel heppnað skátamót.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir