Guðrún María Harðardóttir, formaður Félags eldri borgara í Borgarnesi og nágrenni, fær sér sæti á bekknum.

Gjöf frá yngri borgurum til eldri borgara

Síðastliðin ár hefur Haraldur Már Stefánsson haft umsjón með Skallagrímsvelli í Borgarnesi, ásamt nokkrum öðrum verkefnum. Fyrir nokkru síðan kom Jakob Skúlason að máli við Harald og vakti máls á því að bekki vantaði á völlinn fyrir eldri borgara, sem og þá sem eru að ná sér eftir veikindi. Taldi hann að eldra fólk, og þeir sem eru að ná sér af veikindum, treystu sér ekki til að nýta aðstöðu Skallagrímsvallar þar sem ekki væri hægt að tylla sér niður við og við. Haraldur kennir við Grunnskólann í Borgarnesi á veturna. Einn daginn fékk hann þá flugu í höfuðið að nemendur myndu smíða bekki í smíðakennslu og gefa á völlinn. Ákvað hann að kanna hug fólks til verkefnisins. Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir smíðakennari tók vel í hugmyndina og var látið verða af því að nemendur grunnskólans smíðuðu bekki á Skallagrímsvöll nú á vorönn. Fyrsta bekknum var síðan komið fyrir á sínum stað fyrr í sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir