Ferjan Akranes siglir milli lands og Eyja

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun Samgöngustofu að veita ekki undanþágu fyrir siglingar ferjunnar Akraness á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Lagt er fyrir Samgöngustofu að fallast á umsókn Eimskips um að nota ferjuna til þessara siglinga dagana 4. og 7. ágúst næstkomandi. Frá þessu er greint á vef ráðuneytisins. Mun ferjan því sigla milli lands og Eyja um verslunarmannahelgina.

 

Vestmannaeyjabær kærði synjun Samgöngustofu

Eimskip sótti í júlí um heimild til Samgöngustofu til að sigla ferjunni milli lands og Eyja ofangreinda daga en stofan hafnaði erindinu. Í framhaldi af því kærði Vestmannaeyjabær ákvörðun Samgöngustofu til ráðuneytisins. Við meðferð málsins tilkynnti Eimskip að fyrirtækið styddi Vestmannaeyjabæ varðandi kæruna.

 

Í rökstuðningi með kærunni segir Vestmannaeyjabær að ferjan Akranes hafi fengið tímabundna heimild Samgöngustofu til farþegaflutninga milli Reykjavíkur og Akraness. Hafsvæði á þeirri leið sé flokka sem hafsvæði C, rétt eins og hafsvæðið milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Telur Vestmannaeyjarbær að gefa beri leyfi til siglinga milli lands og Eyja með sömu rökum og skilyrðum og gildi um leyfi ferjunnar til að sigla milli Reykjavíkur og Akraness. Ákvörðun samgöngustofu um að synja umsókn Eimskipa um þær siglingar sé brot á jafnræðisreglu, lögmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Samgöngustofa segir hins vegar í rökstuðningi sínum að beiðni Eimskips hafi verið hafnað á þeirri forsendu að ekki lægi fyrir að skipið uppfyllti reglur um háhraðafarþegaför. Forsendur fyrir tímabundinni heimild í tilraunaskyni hafi aðeins gert ráð fyrir siglingum milli Reykjavíkur og Akraness við hagstæð skilyrði, ekki siglingum milli lands og Eyja um verslunarmannahelgi þar sem álag er í hámarki. Því væru ekki forsendur til að víkka tilraunaverkefnið út á aðra silingaleið, við aðrar aðstæður og aðrar forsendur.

 

Öryggiskröfum fullnægt

Í úrskurði ráðuneytisins segir að Samgöngustofa hafi ekki sýnt fram á að aðstæður til siglinga milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar séu aðrar en milli Reykjavíkur og Akraness. Þar sem ferjan hafi þegar tímabundið leyfi til siglingar á síðarnefndu leiðinni sé ekkert að mati ráðuneytisins sem réttlæti synjun um heimild til siglinga á sambærilegu hafsvæði milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, enda báðar leiðir á hafsvæði C. Það eitt að álag sé í hámarki á umræddu tímabili og að um sé að ræða stærstu ferðahelgi ársins, þar sem ætla má að mikill þrýstingur verði á skipstjórnarmenn að halda áætlun, eru að mati ráðuneytisins ekki sjónarmið sem geti haft áhrif á niðurstöðu málsins enda sé öllum viðeigandi öryggiskröfum fullnægt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir