Úr leik Víkings og ÍA fyrr í sumar. Ljósm. af

Víkingur tapaði í spennandi leik

Víkingur Ólafsvík hefur gengið ágætlega í Pepsideildinni að undanförnu. Víkingur mætti KR í Frostaskjóli í gærkvöld. Víkingur var fyrir leikinn tíunda sæti með þrettán stig en KR í því fimmta með sautján stig. Með sigri í leiknum hefði Víkingur getað slitið sig frá botnbaráttunni, um tíma í það minnsta. Leikurinn var hin mesta skemmtun en lauk með 4-2 sigri KR.

KR hóf leikinn af krafti og var um algjöra einstefnu að ræða í fyrri hálfleik. Á 20. mínútu braut Alexis Egea á Tobias Thomsen, sóknarmanni KR, inn í teig Víkings og vítaspyrna dæmd. Tobias fór sjálfur á vítapunktinn og skoraði. KR hélt áfram að stjórna leiknum í fyrri hálfleik og bættu við öðru marki á 39. mínútu þegar Finnur Orri Margeirsson átti frábæra sendingu inn í teig á Aron Bjarka Jósepsson sem skallaði í mark Víkings. Staðan 2-0 í hálfleik og ekkert útlit fyrir endurkomu Víkings.

Síðari hálfleikur var heldur betur fjörugur og Víkingur náði að jafna metin þvert á gang leiksins. Fyrra markið skoraði Kwame Quee á 60. mínútu úr fyrsta alvöru færi Víkings í leiknum og Víkingur skyndilega kominn inn í leikinn. Um korteri seinna fór Guðmundur Steinn Hafsteinsson illa með vörn KR áður hann skaut í stöngina og inn. Guðmundur hefur verið iðinn við markaskorun að undanförnu. Allt stefndi í jafntefli en á síðustu tíu mínútum leiksins skoraði KR tvö mörk. André Bjerregard, ný leikmaður KR, átti hörkuskot að marki Víkings á 81. mínútu sem Cristian Martínez átti ekki roð í og kom því KR yfir. Skömmu síðar kláraði Óskar Örn Hauksson leikinn fyrir KR með snyrtilegu marki. Lokatölur 4-2 og Víkingur enn í botnbaráttu deildarinnar.

Víkingur á næst leik miðvikudaginn 9. ágúst á heimavelli gegn Grindavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir