Úr leik ÍA fyrr í sumar. Ljósm. gbh.

Stærsta tap ÍA í deildarleik í sögu félagsins

Skagamönnum hefur gengið afleitlega það sem af er tímabili í Pepsideild karla í knattspyrnu. Í gærkvöldi mættu þeir toppliði Vals í þrettándu umferð deildarinnar. Fyrir leikinn bjuggust fáir við öðru en öruggum sigri Valsmanna og reyndist það vera raunin. Skagamenn töpuðu leiknum 6-0 og setti liðið þar með met þar sem ÍA hafði fram að þessum leik aldrei í sögu félagsins tapað deildarleik með fleiri en fimm mörkum. Skagamenn voru fyrir leikinn í neðsta sæti með níu stig og eru þar enn eftir leikinn en fjögur stig eru upp úr fallsæti eins og staðan er nú.

Skagamenn lágu lágt á vellinum í fyrri hálfleik og voru þéttir til baka. Þeir gáfu Valsmönnum fá færi á sér en þrátt fyrir það náðu Valsmenn að skora tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks. Fyrra markið var skorað á 44. mínútu eftir sendingu Sigurðar Egils Lárussonar af vinstri kanti á kollinn á Patrick Pedersen sem skallaði boltann beint í fangið á Ingvari Þór Kale af stuttu færi en Ingvar missti boltann inn í markið. Mínútu síðar skoruðu Valsmenn svo keimlíkt mark þar sem Bjarni Ólafur Eiríksson gaf boltann fyrir af vinstri kantinn þar sem Guðjón Pétur Lýðsson stýrði knettinum inn fyrir línuna. Staðan 2-0 þegar flautað var til hálfleiks og róðurinn þungur fyrir Skagamenn.

Það var andlaust Skagalið sem mætti til leiks í síðari hálfleik og fljótlega fór leikurinn að snúast um það hve mörg mörk Valur gæti skorað. Eiður Aron Sigurbjörnsson bætti við þriðja marki Vals á 63. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Tíu mínútum síðar bætti Orri Sigurður Ómarsson við fjórða markinu; Orri fékk að boltann nokkuð langt frá vítateig Skagamanna, hann fékk að athafna sig eins og honum hentaði án þess að nokkur Skagamaður setti pressu á hann. Orri ákvað að skjóta af 25 metra færi og skoraði stórglæsilegt mark. Ekki þurftu áhorfendur að bíða lengi eftir næsta marki en fjórum mínútum síðar fékk Sigurður Egill boltann eftir frábæra sendingu frá Guðjóni Pétri, tók vel á móti boltanum og klobbaði Ingvar Þór í marki Skagamanna. Valur bætti svo við sjötta markinu undir lok leiksins þegar Kristinn Ingi Halldórsson skoraði eftir sendingu Dions Acoff. Sóknarmaðurinn Kristinn Ingi hafði fyrir leikinn spilaði í öllum leikjum Vals í sumar án þess að skora.

Eftir leikinn er útlitið nokkuð dökkt fyrir Skagamenn sem hafa nú ekki unnið leik síðan um miðjan júní. Næsti leikur Skagamanna er á heimavelli gegn KR þriðjudaginn 8. ágúst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir