Le Boreal tekur um 250 farþega og áhöfnin telur 139 manns.

Fyrsta skemmtiferðaskipið til Akraness

Síðastliðinn sunnudag kom í fyrsta sinn skemmtiferðaskip til hafnar á Akranesi. Le Boreal hét skipið sem kom snemma morguns og lá við bryggju fram á kvöld. Skipið var smíðað árið 2010 og er tæplega ellefu þúsund brúttótonn. Það er 142 m á lengd, breidd er 18 m og djúpristan er 4,8 m. Farþegar skipsins voru um 250 talsins og fóru þeir nær allir beint upp í rútu og í jöklaferð. Áhöfnin, 139 manns, gekk um bæinn á meðan beðið var eftir farþegum. Aðbúnaður farþega í Le Boreal er býsna góður en í skipinu má finna; verslun, samkomusal þar sem fara fram tónleikar og aðrar uppákomur dag hvern, tvo veitingastaði, bar, sundlaug, bókasafn, líkamsrækt, sána og fleira.

Etienne Garcia, skipstjóri Le Boreal, tók vel á móti bæjarstjórn og aðilum frá Faxaflóahöfnum um morguninn. Sagðist hann vona að þessi ferð yrði ekki sú síðasta sem hann færi til Akraness. Hann hafði siglt til Íslands í fjöldamörg ár og kynni vel við land og þjóð.

Áður en skipið kom til Akraness greindi fréttastofa Stöðvar 2 frá því að Garcia hafi farið á svig við lög hérlendis. Hann hafði daginn áður hleypt um 200 farþegum Le Boreal í land á friðlýstu svæði á Hornströndum án leyfis auk þess sem skipið og farþegarnir hafi ekki verið tollskoðaðir. Ekki liggur fyrir hvernig málið verður afgreitt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir