Leiðbeiningar til að þekkja eldislaxa í veiðiám. Villti laxinn til vinstri er úr Elliðaánum, en eldislaxinn til hægri veiddist í Patreksfirði. Heimild: Veiðimálastofnun.

Eldislaxar meðal fiska úr íslenskum ám

Í Skessuhorni í síðustu viku var sagt frá veiði í nokkrum laxveiðiám. Meðal annars birtist mynd af Sólveigu Einardóttiur sem heldur á tveimur löxum sem hún hafði þá veitt í Straumunum í Borgarfirði. Mynd þessi vakti athygli áhugamanna um laxveiði þar sem annar laxinn var augljóslega ekki úr villtum stofni, heldur eldislax sem einhversstaðar hefur sloppið úr kvíum. Í framhaldi af því var óskað eftir því Skessuhorn birti upplýsingar til veiðimanna um hvernig þekkja megi eldislaxinn frá villtum löxum og hvernig bregðast eigi við ef hann veiðist. Eftirfarandi upplýsingar eru frá Veiðimálastofnun:

„Á síðustu árum hefur laxeldi í sjókvíum aukist hér við land. Umtalsverður fjöldi laxa af uppruna kynbættra norskra eldislaxa eru því í eldiskvíum hér við land. Brýnt er að eldisbúnaður og verkferlar við eldið sé með þeim hætti að laxar haldist í kvíum og sleppi ekki úr þeim. Ef það gerist geta eldislaxar gengið í ár og blandist íslenskum laxi og þar með haft áhrif á erfðir og  aðlögunarhæfni villtra laxastofna. Mikilvægt er að veiðimenn séu vakandi fyrir því hvort eldislaxar veiðast í ám en oft má þekkja þá frá villtum löxum á útlitseinkennum en einnig með því að greina uppruna þeirra með greiningum á hreistri og með greiningu erfðaefnis.

Veiðimálastofnun og Fiskistofa hafa sett saman myndir sem eiga að geta nýst veiðimönnum við að þekkja algeng útlitseinkenni á eldislöxum. Ef eldislaxar veiðast er mikilvægt að veiðimenn geri Veiðimálastofnun og/eða Fiskistofu viðvart, og komi fiskum með möguleg einkenni til frekari rannsóknar. Reiknað er með að að leiðbeiningar verði settar upp í veiðihúsum en þær má einnig finna hér í prentvænni útgáfu með texta bæði á íslensku og ensku.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir