Undirbúningur hafinn að aldarafmæli fullveldis Íslands

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands verður fagnað á næsta ári með fjölbreyttri dagskrá um land allt. Hvanneyringurinn Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir var fyrr á þessu ári skipuð framkvæmdastjóri vegna undirbúnings hátíðarhaldanna. Þá hefur nefnd sem Alþingi skipaði til að annast undirbúning og framkvæmd afmælishátíðarinnar hafið störf. „Kallað verður eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna með tillögum að verkefnum á hátíðardagskrána sem standa mun allt árið 2018,“ segir Ragnheiður.

Undirbúningsnefndin leggur áherslu á að ná til sem flestra landsmanna. Til að ná því fram verður kallað eftir fjölbreyttum og vönduðum verkefnum á dagskrá afmælisársins. Meðal annars verður lögð áhersla á samstarfsverkefni og verkefni með nýstárlega nálgun á viðfangsefnið, hvort sem litið er til fortíðar, nútíðar eða framtíðar. Auglýst verður eftir verkefnum í lok ágúst.

Að sögn Ragnheiðar verður litið til verkefna sem minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og/eða hafa skírskotun til þess þáttar í sögu þjóðarinnar, verkefna sem fjalla um og/eða byggja á fullveldishugtakinu, hvort heldur er í fortíð, nútíð eða framtíð og hvetja til samstarfs. Þá segir hún að samstarf geti verið þvert á greinar, milli landssvæða, aldurshópa, þjóðfélagshópa, landa, ólíkra stofnana og félagasamtaka. „Einnig köllum við eftir verkefnum sem höfða til barna og ungs fólks og eru til þess fallin að auka þekkingu og innsýn þeirra í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið. Við ætlum að höfða til fjölbreytts hóps fólks og hvetja til almennrar þátttöku og draga fram áhugaverða samlíkingu milli fortíðar og nútíðar í sögu lands og þjóðar, s.s. í menntun, heilbrigðismálum, náttúru, umhverfismálum, vísindum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og í daglegu lífi fólks.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Sýningu Ísaks Marvins lýkur í dag

Grundfirðingurinn Ísak Marvins opnaði myndlistasýningu sína, Innsýn, í Samkomuhúsi Grundarfjarðar fimmtudaginn 18. október síðastliðinn. Sýningin er liður í dagskrá Rökkurdaga.... Lesa meira