Ferjan Akranes í samstarf við Strætó – fyrstu helgarferðirnar framundan

Ferjan Akranes hefur nú siglt á milli Akraness og Reykjavíkur í rétt rúman mánuð. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir ferjusiglingarnar hafa gengið ágætlega það sem af er. „Við erum ánægð með hvernig ferjusiglingarnar hafa gengið. Við sjáum ákveðið mynstur hvenær fólk nýtir sér ferjuna og hvenær ekki. Í sól og blíðu er ferjan vel sótt en þegar er leiðinlegt veður, eins og hefur verið alloft í sumar, er minni aðsókn. Þetta hefur allt verið á réttri leið og við lítum jákvæðum augum á framhaldið,“ segir Gunnlaugur í samtali við Skessuhorn.

Sitt sýnist hverjum um tímaáætlun ferjunnar og hafa margir kallað eftir helgarferðum. „Okkur hefur oft verið bent á að fyrstu siglingar okkar eru of snemma dags. Við ætlum að hlusta á fólkið og hyggjumst breyta þeim ferðum og fara fyrstu ferð frá Reykjavík klukkan sjö að morgni og ferð frá Akranesi klukkan átta í stað þess að fara hálf sjö og sjö. Við ætlum einnig að reyna fyrir okkur í siglingum um helgar og munum sigla um þessa helgi og vonandi út sumarið í það minnsta. Klukkan 10 og 17 frá Reykjavík en klukkan 11 og 18 frá Akranesi. Við erum að skoða að fara einu sinni á dag í útsýnistúr um Hvalfjörð á ferjunni og loks erum við að skoða að bæta ferð um miðjan dag,“ segir Gunnlaugur.

Von bráðar mun ferjan svo tengjast strætókerfi Reykjavíkur þar sem fólki gefst kostur á að fá skiptimiða í strætó eftir ferð úr ferjunni og tengja þar með þessa samgöngukosti. „Með samstarfinu við Strætó erum við að reyna að auka þjónustuna við þá sem nýta sér ferjuna. Þetta er hluti af tilraunaverkefni ferjunnar. Við erum að reyna vinna að því markmiði að nýta ferjuna sem best og viljum við gera það í samstarfi við viðskiptavini og bæjarbúa í heild á Akranesi. Fólk má vera ófeimið að láta okkur vita,“ segir Gunnlaugur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira