Mennirnir beittu maðki og voru búnir að landa laxi úr Efra-Rauðabergi þegar til þeirra náðist. Ljósm. úr safni Skessuhorns frá Efra-Rauðabergi tengist fréttinni ekki að öðru leyti.

Veiðiþjófar gómaðir við laxveiði með aðstoð dróna

Tveir menn voru í gærkvöldi staðnir að verki þar sem þeir höfðu landað laxi úr veiðistaðnum Efra-Rauðabergi ofarlega í Kjarará án þess að hafa veiðileyfi. Veiðistaður þessi er með þeim efstu sem veiðimenn í Kjarará reyna fyrir sér á, en þangað er talsverð ganga neðan frá Gilsbakkaeyrum. Hvergi á landinu gengur lax jafn langt frá sjó enda eru menn komnir langleiðina að Arnarvatnsheiði á þessum stað. Veiðimenn þessir höfðu hins vegar nálgast svæðið úr annarri átt, gengið frá Hólmavatni niður með Lambá sem rennur út í Kjarará. Höfðu þeir fyrst reynt að veiða í fossinum þar sem Lambá fellur í ána en fært sig þá neðar og landað laxi úr Efra-Rauðabergi. Beittu þeir maðki sem auk annarra brota þeirra er stranglega bannað. Veiðiverði við ána var gert viðvart og náði hann að standa veiðiþjófana að verki og mynda þá við iðju sína. Veiðivörður við ána segir í samtali við Skessuhorn að hann telji að veiðistaður sem þessi þurfi nokkra daga til að jafna sig eftir brútal veiðiaðferðir sem þessar sem fyrir mörgum árum hafi verið bannaðar í ánni. Hann og veiðifélagsmenn líti málið mjög alvarlegum augum.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns gengu mennirnir við broti sínu en báru við háu verði veiðileyfa. Engu að síður gegna þeir hvor fyrir sig virðingarstöðum og ætti fjárhagur því ekki að aftra þeim frá veiðileyfakaupum. Farið var með mennina til skýrslutöku á lögreglustöðina í Borgarnesi. Veiðifélagið Starir, leigutaki árinnar, mun leggja fram kæru næstu daga, og farið verður fram á háar fjárkröfur fyrir veiðiþjófnað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir