Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði mark Skagamanna eftir stórkostlega sendingu frá Þórði Þorsteini Þórðarsyni. Ljósm. Guðmundur Bjarki Halldórsson

Jafntefli Skagamanna dugði ekki til að komast úr fallsæti

Á Akranesi í gær fór fram leikur Skagamanna og Víkings Reykjavík í tíundu umferð Pepsideildar karla. Skagamenn voru fyrir leikinn í neðsta sæti eftir sigur Ólafsvíkur á Íslandsmeisturum FH en Víkingur Reykjavík var í fimmta sæti. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og léku Skagamenn fínan leik og voru óheppnir að skora ekki sigurmark undir lok leiksins.

Fyrsta mark leiksins kom á 24. mínútu eftir rólega byrjun á leiknum. Víkingur fékk hornspyrnu sem Skagamenn komu í burtu og úr varð skyndisókn Skagamana. Boltinn barst á Þórð Þorstein Þórðarson á hægri vængnum sem átti stórkostlega lága sendingu inn í teig á Tryggva Hrafn Haraldsson sem lék á varnarmann Víkings og lagði boltann í markið. Staðan orðin 1-0 og þannig var hún þegar flautað var til hálfleiks.

Lítið var um færi í leiknum og voru Skagamenn agaðir í sínum varnarleik en það hefur vantað það sem af er tímabili. Skagamenn fengu frábært tækifæri til að bæta við marki um miðjan síðari hálfleik. Halldór Smári, varnarmaður Víkings, lenti í miklu basli eftir pressu frá Steinari Þorsteinssyni rétt fyrir utan teig Víkings. Halldór rann og Steinar náði boltanum og gat keyrt í átt að marki en var of bráður á sér og átti slakt skot framhjá markinu. Á 77. mínútu skoraði Víkingur en þar var á ferðinni Alex Freyr Hilmarsson. Erlingur Agnarsson átti þá flotta sendingu á Alex Freyr vinstra megin í teig Skagamanna og skoraði Alex af öryggi framhjá Ingvari Þór Kale í marki Skagamanna. Skagamenn voru allt annað en sáttir og vildu meina að brotið hafi verið á Patryk Stefanski í aðdraganda marksins.

Skagamenn sköpuðu sér nokkur mjög góð færi sem þeir hefðu getað nýtt undir lok leiksins en allt kom fyrir ekki og lauk leiknum með 1-1 jafntefli. Skagamenn lyftu sér upp um eitt sæti með jafnteflinu, úr því neðsta í það næstneðsta og eru því enn í fallsæti. Næsti leikur Skagamanna er heldur betur baráttuleikur en mánudaginn 17. júlí mætast Vesturlandsliðin Víkingur og ÍA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir