Grundartangi. Næst á mynd innan gula rammans er svæðið sem Silicor var úthlutað úr Klafastaðalandi.

Silicor Materials þarf að gangast undir umhverfismat

Árið 2014 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga þyrfti ekki að gangast undir umhverfismat. Sagði Skipulagsstofnun að verksmiðjan „sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð umhverfisáhrifum.“ Ástæðan fyrir þeirri niðurstöðu sagði Skipulagsstofnun vera þá að hún taldi „að áhrif starfseminnar á loftgæði og gæði yfirborðsvatns verði óveruleg. Því veldur fyrst og fremst að unnið er að því að fullhreinsa hráefni sem er mjög hreint þegar það er tekið til vinnslu og framleiðslan felur ekki í sér útblástur eða útskolun mengunarefna, heldur er unnið með lokaðan framleiðsluferil þar sem öll framleiðslan og hliðarafurðir nýtast sem söluvara. Starfsemin felur hvorki í sér útblástur af flúor né brennisteinsdíoxíði og hefur því engin áhrif á stærð þynningarsvæðis fyrir iðjuverin á Grundartanga eða aukið mengunarálag innan þess. Sú mengun sem berst frá starfseminni til andrúmslofts er ryk en miðað við framlagðar upplýsingar um magn og samsetningu þess telur Skipulagsstofnun að áhrif af völdum þess verði óveruleg.“

 

Vegna formgalla

Nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar með dómi sem kveðinn var upp 16. júní síðastliðinn og þarf Silicor því að fara í gegnum umhverfismat ætli það sér að reisa sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Í yfirlýsingu frá Davíð Stefánssyni, ráðgjafa Silicor Materials, segir: „Silicor telur sig hafa í einu og öllu fylgt lögum, reglum og leiðbeiningum eftirlitsstofnana. Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar ásamt ítarlegum upplýsingum. Skipulagsstofnun kallaði síðan eftir áliti allra fagstofnana og komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hefði óveruleg umhverfisáhrif í för með sér og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Dómurinn telur formgalla á þeirri ákvörðun og því verður að endurtaka málsmeðferðina. Silicor telur enn að ekki þurfi að fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar og jafnvel þótt slíkt mat færi fram að þá standist framkvæmdin alla skoðun í þeim efnum.“

 

Telja Faxaflóahafnir hafa sýnt verulega óvarkárni

Félagið Umhverfisvaktin við Hvalfjörð er að vonum ánægt með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem náttúran er látin njóta vafans og gagnrýnir Skipulagsstofnun harðlega. „Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur er umhverfi og náttúru í hag því í henni felst viðmið um hver eigi að njóta vafans. Einnig felst í niðurstöðunni skýlaus krafa um vandvirkni af hálfu opinberra aðila í ákvarðanatöku, krafa sem aðrar stofnanir sem höndla með mál tengd umhverfi og afleiðingum mengunar ættu einnig að taka til sín. Undanfarin ár hefur Skipulagsstofnun heimilað framleiðsluaukningu stóru iðjuveranna, Elkem og Norðuráls á Grundartanga án þess að fram þyrfti að fara mat á umhverfisáhrifum hennar. Tveim nýjum mengandi iðjuverum, Kratus og GMR, var komið á fót án þess að fram færi mat á umhverfisáhrifum þeirra. Skýring Skipulagsstofnunar hefur verið sú, að breytingar sem um var að ræða hefðu ekki teljandi umhverfisáhrif miðað við þá mengun sem fyrir væri. Þessi afstaða stofnunarinnar virðist fela í sér að það sé í lagi að bæta sífellt við mengandi starfsemi á svæðinu, svo fremi sem það sé gert í smáum skrefum í einu. Umhverfisstofnun lenti síðar í verulegum vandræðum með GMR sem uppfyllti engan veginn sett skilyrði um m.a. mengunarvarnir, eins og kunnugt er. Við því reyndist fátt hægt að gera og fékk fyrirtækið að menga nær óáreitt þar til það lagði upp laupana – á kostnað náttúru og íbúa í nágrenninu,“ segir í yfirlýsingu frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð.

Félagið telur einnig að Faxaflóahafnir hafi sýnt verulega óvarkárni gagnvart náttúrunni og lífríki sem og að sýnt íbúum við Hvalfjörð yfirgang með stóriðjustefnu sinni. „Faxaflóahafnir skýli sér á bak við Umhverfisstofnun sem á að sjá um vöktun umhverfisins en staðreyndin sé sú að iðjuverin sjálf sjái um allt utanumhald umhverfisvöktunarinnar og með því móti sé hún ekki hlutlaus, heldur þeim í vil. Úrræði Umhverfisstofnunar til að stoppa af þá sem ekki fylgja starfsleyfi eru því miður mjög bitlaus og sparlega notuð. Umhverfisvaktin telur að alls ekki eigi að bæta við fleiri stóriðjuverum á Grundartanga en setja eigi þeim iðjuverum sem fyrir eru mun strangari skorður um losun eiturefna,“ segir í yfirlýsingunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir