Myglusveppur greinist í Grunnskólanum í Borgarnesi

Verkfræðistofan Efla var í vor fengin til að gera úttekt á húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi. Nú liggja niðurstöður þeirrar úttektar fyrir og voru kynntar á fundi byggðarráðs í síðustu viku. Í ljós kemur að af fjórum sýnum sem tekin voru á stöðum þar sem raka hefur orðið vart, fannst í þremur þeirra myglu- og bakteríuvöxtur. Í úrvinnslu sýna á Náttúrufræðistofnun Íslands greindist mygla í sýnum sem tekin voru í stofum 16 og 30 og á kaffistofu starfsfólks. Sveitarfélagið mun strax bregðast við og láta hefja lagfæringar á þeim stöðum þar sem staðfest er að myglu eða bakteríuvöxt sé að finna. Jafnframt verður gerð heildstæð úttekt á skólanum til að kortleggja nákvæmlega þá staði í húsinu sem myglu er mögulega að finna og í framhaldinu af því vinna að tafarlausum úrbótum.

Fram kemur í skýrslu Eflu að um sé að ræða staðbundin vandamál m.a. vegna leka meðfram gluggum. Á fundi byggðarráðs lagði Gísli Karel Halldórsson sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs fram fyrstu drög að aðgerðaáætlun vegna málsins. Gera þarf ítarlega úttekt á húsnæði skólans í heild til að kortleggja nákvæmlega þá staði í byggingum hans sem mygla er. Á fundi sínum ræddi byggðarráð ítarlega niðurstöður skýrslunnar og framkomnar upplýsingar. „Mikilvægt er að brugðist verði við þeirri stöðu sem upp er komin á ábyrgan og faglegan hátt. Vinna þarf áætlun um aðgerðir með tilheyrandi kostnaðargreiningu. Byggðarráð samþykkti að hefja nú þegar lagfæringar á þeim stöðum þar sem mygla greindist. Ákveðið var að sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs gæfi byggðarráði reglulega yfirlit um framgang málsins meðan unnið er að úrbótum,“ segir Geirlaug Jóhannsdóttir formaður byggðarráðs í samtali við Skessuhorn.

Geirlaug segir að sínu mati sé lán í óláni að undanfarin misseri hafi verið í gangi undirbúningur að viðbyggingu við grunnskólann og endurbætur á eldra húsnæði. „Á framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins eru eyrnamerktir fjármunir sem búið var að samþykkja að verja í endurbætur á húsnæði grunnskólans og auðveldar það sveitarfélaginu að bregðast við þessari leiðinlegu niðurstöðu hratt og örugglega.“ Geirlaug segir að Grunnskólinn í Borgarnesi hafi verið byggður í fjórum áföngum og húsið eigi sér nokkra lekasögu. „Vatnsleki hefur komið inn í gegnum sprungur á útveggjum og með gluggum sérstaklega á suður- og vesturhlið. Viðhaldsfé hefur á undanförnum árum verið af skornum skammti og húseignir sveitarfélagsins eru auk þess margar og viðhaldsþörf sumra þeirra orðin umtalsverð. Fyrirtækið Hús og heilsa gerði árið 2013 úttekt á byggingum Grunnskólans í Borgarnesi m.t.t. innivistar og loftgæða. Í framhaldi þeirrar vinnu var ráðist í framkvæmdir utandyra til að sporna við leka, en augljóslega hafa þær ekki dugað til.“ Geirlaug segir að allt verði gert til að lagfæra skemmdir, hreinsa húsnæðið og koma því í gott lag fyrir upphaf skólastarfs í haust.

Líkar þetta

Fleiri fréttir