Hækka laun bæjarfulltrúa og fyrir nefndarsetu á Akranesi

Bæjarstjórn Akraness samþykkti samhljóða á fundi sínum 13. júní síðastliðinn að hækka laun kjörinna bæjarfulltrúa um 9% frá 1. júní síðastliðnum en ekki umfram það til ársloka 2018. Jafnframt segir í bókun frá bæjarstjórnarfundi að Akraneskaupstaður vilji halda launum kjörinna fulltrúa á vegum bæjarins innan marka SALEK-samkomulagsins. Samhliða samþykkti bæjarstjórn að leggja niður biðlaunarétt bæjarfulltrúa en það fyrirkomulag tíðkast ekki hjá samanburðarsveitarfélögum og fyrirfinnst einungis hjá Reykjavíkurborg þar sem borgarfulltrúar sinna embættisstörfum í aðalstarfi. Jafnframt samþykkti bæjarstjórn breyttar reglur um laun fyrir setu í ráðum, nefndum og starfshópum.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti 22. nóvember 2016 að fresta ótímabundið hækkun launa sem fram til þess höfðu miðast við úrskurð Kjararáðs um hækkun þingfararkaups. Eins og þekkt er ákvað Kjararáð á kosningadaginn 29. október sl. að hækka þingfararkaup alþingismanna um 44,3% frá 1. nóvember 2016 en laun alþingismanna voru þá hækkuð úr kr. 762.940 í kr. 1.104.040 kr. „Með því að hækka laun bæjarfulltrúa um 9% frá og með 1. júní síðastliðnum og ekki umfram það til ársloka 2018 vill bæjarstjórn Akraness halda launum kjörinna fulltrúa á vegum bæjarins innan marka SALEK-samkomulagsins,“ segir í bókun bæjarstjórnar sem samþykkt var eins og áður segir samhljóða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir