Þannig er umhorfs frá hlaðinu við Deildartunguhver og horft heim að Kraumu. Til vinstri glittir í bullandi hverinn.

Nýir meðeigendur komnir að Krauma og framkvæmdir að hefjast

Búið er að skrifa undir samning um kaup nýrra fjárfesta á 66,6% hlut í Krauma við Deildartunguhver. Fyrri eigendur halda þriðjungshlut í fyrirtækinu en fyrirtækið Jökull Invest kaupir meirihlutann. Það er sama félag og stendur á bak við rekstur Hótel Hafnar í Hornafirði. Pétur Jónsson rekstrarhagfræðingur hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Krauma. Hann segir í samtali við Skessuhorn að framkvæmdir hefjist á næstu dögum við að ljúka við hús og lóð en stefnt er á að opna Krauma í september á þessu ári. Uppbygging mannvirkja var vel á veg komin síðasta vor en fór í bið meðan nýrra fjárfesta var leitað og lokið við fjármögnun en þá höfðu framkvæmdir farið fram úr áætlun. Fyrri eigendur fagna þessum lyktum málsins og munu eiga tvo fulltrúa í stjórn en þrír koma frá Jökul Invest.

Pétur Jónsson framkvæmdastjóri segist bjartsýnn á framtíð Krauma. Nú þegar komi um 200 þúsund gestir að Deildartunguhver á ári hverju og þar sé iðandi mannlíf frá morgni til kvölds. Sjálfur segist hann hafa lítið þekkt til í uppsveitum Borgarfjarðar áður en hann tók verkefnið að sér og hlakkar til að kynnast fólkinu á svæðinu. Þegar hann hafi fyrst komið að hvernum og hinum glæsilegu mannvirkjum sem þar eru risin, hafi hann sjálfur upplifað „WOW effect“. „Þetta er mjög spennandi verkefni og mun vafalítið verða góður segull í vaxandi ferðaþjónustu í Borgarfirði. Hér hafa á síðustu árum byrjað ýmis spennandi verkefni í ferðaþjónustu, m.a. í Langjökli, Húsafelli, Víðgelmi og mikil uppbygging er í Reykholti. Fjölmörg smærri fyrirtæki eru auk þess að verða til og önnur að vaxa. Afreying og þjónusta er því að eflast og Borgarfjörður á eftir að koma afar sterkt inn í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir Pétur í samtali við Skessuhorn. Hann kveðst hlakka til að kynnast íbúum í uppsveitum Borgarfjarðar og ætlar að leggja mikla áherslu á að mynda góð tengsl við nærumhverfið. Nú fari hins vegar allt á fullt við að ljúka við tengingar á heitum pottum og rafmagni, frágang innréttinga og lóðar við Krauma til að hægt verði að opna í haust.

 

Mikið lagt upp úr þægindum fyrir gesti

Mannvirki við náttúrulaugar Krauma eru á sjöunda hundrað fermetrar. Þar eru m.a. fimm heitar laugar. Engum klór eða sótthreinsiefnum verður bætt í vatnið en þess í stað verður tryggð næg endurnýjun vatns í pottunum. Á laugasvæðinu verða tvö aðskilin gufuböð, kaldur pottur og slökunarherbergi með legubekkjum, róandi tónlist og arineldi. Þá er veitingastaður, bar og setustofa í hluta rýmisins. Arkitekt bygginga, laugasvæðis og landslags er Brynhildur Sólveigardóttir. Hönnun hennar miðar að því að allt svæðið myndi eina heildstæða mynd sem fellur vel að umhverfinu, en verði á sama tíma vel sýnileg. Meðfylgjandi mynd sýnir að það hefur tekist prýðilega.

Líkar þetta

Fleiri fréttir