Gunnar Smári Jónbjörnsson, Sunnefa Burgess og Jóhann Örn Jónbjörnsson stefna að því að opna CrossFit stöð á Akranesi í ágúst.

Stefna á að opna CrossFit stöð á Akranesi í ágúst

Bræðurnir Gunnar Smári og Jóhann Örn Jónbjörnssynir ásamt Sunnefu Burgess stefna að því að opna CrossFit stöð á Akranesi í ágúst. Þau hafa að undanförnu verið að leita eftir húsnæði fyrir stöðina og hafa nú fundið það. Vesturgata 119, þar sem HM pípulagnir voru til húsa, varð fyrir valinu. „Húsið hentar okkur ágætlega, það er um 200 fermetrar að stærð og nú vinnum við í því að gera það klárt svo hægt verði að opna stöðina. Mesta vinnan núna er að koma upp búningsklefum fyrir bæði karla og konur en auk þess þurfum við að gera eitt og annað við húsið fyrir opnun. Staðsetningin á húsinu er góð og eigum við klárlega eftir að nýta okkur hlaupaleiðir þar í kring í þjálfun okkar,“ segir Gunnar Smári í samtali við Skessuhorn.

„Við stefnum að því að opna í ágúst, sem hentar vel fyrir CrossFit. Sumrin eru róleg í CrossFit og því flott að geta opnað í ágúst og búið til lið fyrir þá sem gætu keppt á fyrstu CrossFit-mótunum í haust,“ segir Gunnar Smári en hann segist finna vel fyrir áhuga í bæjarfélaginu fyrir opnun stöðvarinnar. „Fólk hefur mikið gefið sig á tal við mig og lýst yfir ánægju með fyrirætlanir okkar um að opna stöðina. Þetta verður góð innspýting í bæjarfélagið og bætir flóruna sem fyrir er í hreyfingu á Akranesi. Ég hef einnig verið mikið spurður um hvort ég ætli einnig að bjóða upp á sjúkraþjálfun; það er alveg í spilunum en ekki í ágúst. Vonandi get ég samt boðið upp á sjúkraþjálfun á þessu ári eða á því næsta.“

Gunnar segir að þau vonist eftir að geta boðið upp á hreyfingu fyrir fleiri en þá sem vilja fara alla leið í CrossFit. „Fyrst um sinn ætlum við að einbeita okkur að CrossFit-inu en vonandi getum við fljótlega farið að bjóða upp á hreyfitíma fyrir fólk sem er eldra en 60 ára og fleira í þeim dúr. Það yrðu þá tímar sem yrðu ekki beinlínis CrossFit tímar. Okkur hlakkar til að opna stöðina og bjóða Akurnesinga velkomna.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir