Bræðurnir Daníel Freyr og Alexander Örn prýða forsíðu Travel West Iceland 2017. Ljósm. Hilmar Sigvaldason.

Fundu sjálfa sig á forsíðunni

Bræðurnir Daníel Freyr og Alexander Örn Skjaldarsynir eru nemendur í 5. bekk Auðarskóla í Búðardal. Þeir eru þessa stundina staddir í skólaferðalagi á Akranesi ásamt samnemendum sínum.

Meðal þeirra staða sem krakkarnir hafa heimsótt er Akranesviti. Í þeirri heimsókn ráku bræðurnir augun í Ferðablað Skessuhorns, Travel West Iceland 2017, sem liggur þar frammi. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að það eru einmitt þeir Daníel og Alexander sem prýða forsíðu blaðsins. Gripu bræðurnir eintak og stilltu sér glaðir upp, brosandi sínu breiðasta og með sjálfa sig á milli sín, þegar ljósmyndari komst að því að þar færu engir aðrir en piltarnir á myndinni.

Foreldrar Daníels og Alexanders bræðra eru Skjöldur Örn Skjaldarson og Carolin Baare Schmidt í Búðardal. Myndina af þeim bræðrum á forsíðu ferðablaðsins tók Steinunn Matthíasdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir