Skoðuðu húsakynni skólans

Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands framkvæmdu í apríl síðastliðnum skoðun á húsakynnum Grunnskólans í Stykkishólmi að beiðni skipulags- og byggingafulltrúa Stykkishólmsbæjar og skólastjóra. Fram kom að kvartanir hefðu borist frá nemendum um óþægindi og vanlínan í ákveðnum kennslustofum í skólanum. Jafnvel lék grunur á um að mygla gæti valdið þessum óþægindum. Kennslustofur 7. og 9. bekkjar skólans eru báðar inn af bókasafni skólans. Í stofunum er tvöfalt gler, ónýtt í nokkrum gluggum. Það var niðurstaða starfsmanna HeV að mygla hefði ekki náð að myndast í rýmunum sem um ræðir en raka mætti þó finna í útveggjum. Hins vegar segir í niðurstöðu skoðunar HeV að hreinlæti loftræstikerfis í húsinu væri ábótavant og m.a. þyrfti að skipta út síum. Þá er bent á að skipta þurfi út hljóðeinangrandi plötum í lofti matsalar og að á gólfi bókasafns sé gamalt teppi sem þarfnist djúphreinsunar. Framkvæmdir standa yfir við viðbyggingu skólans, sbr. meðfylgjandi mynd sem tekin var í vor, þar sem m.a. nýtt bókasafn verður til húsa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir