Garðar Gunnlaugsson skoraði þrennu í ótrúlegum sigri ÍA á Fram í 32 liða úrslitum bikarsins. Ljósm. gbh.

Ótrúleg endurkoma Skagamanna

ÍA sigraði Fram í ótrúlegum leik í Borgunarbikar karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á Akranesvelli í gær. Gestirnir leiddu 3-1 þegar aðeins þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Upphófust þá hreint út sagt ótrúlegar lokamínútur þar sem Skagamenn skoruðu þrjú mörk á fimm mínútum og tryggðu sér 4-3 sigur.

Framarar komust yfir strax á 8. mínútu leiksins og þurftu ekki að hafa mikið fyrir markinu. Stungusending inn fyrir vörnina á Guðmund Magnússon sem skoraði auðveldlega, einn á móti Páli Gísla í markinu. Leikurinn var rólegur eftir markið og lítið að gerast inni á vellinum. En það breyttist þegar leið nær lokum fyrri hálfleiks. Gestirnir komust í 2-0 á 39. mínútu. ÍA tapaði boltanum á miðjunni og Guðmundur fékk stungusendingu inn fyrir vörnina. Hann kláraði færið vel, skoraði sitt annað mark og annað mark Fram en varnarleikur Skagamanna var ekki upp á marga fiska. Á markamínútunni miklu, þeirri 43., fengu Skagamenn vítaspyrnu þegar Atli Gunnar Guðmundsson, markvörður Fram, braut á Þórði Þorsteini Þórðarsyni sem var kominn einn inn fyrir. Garðar Gunnlaugsson fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

En gestirnir svöruðu strax. Á lokamínútu fyrri hálfleiks léku Framarar sín á milli. Alex Freyr Elísson fékk boltann við vítateig ÍA, fór framhjá varnarmanni og lagði boltann í hornið en aftur mátti varnarleikur ÍA muna fífil sinn fegurri. Staðan 1-3 fyrir Fram í hléinu.

 

 

Þrjú mörk á fimm mínútum

Síðari hálfleikur var tíðindalítill framan af og nokkuð jafnt á með liðunum. Það var ekki fyrr en á 78. mínútu að Framarar fengu dauðafæri eftir skelfileg mistök Arnars Más Guðjónssonar en Páll Gísli varði vel. Skömmu síðar var Hilmari Halldórssyni vikið af velli þegar hann fékk sitt annað gula spjald. Skagamenn því orðnir manni færri, tveimur mörkum undir og á brattann að sækja.

En lokamínúturnar leiksins voru hreint út sagt ótrúlegar. Skagamenn gerðu breytingu og inn á kom Ólafur Valur Valdimarsson. Hann var ekki lengi að láta að sér kveða. Á 87. mínútu átti hann góða fyrirgjöf úr aukaspyrnu, beint á kollinn á Garðari sem skallaði boltann í netið og minnkaði muninn í 2-3. Á lokamínútu leiksins fékk ÍA vítaspyrnu þegar Kristófer Jacob Reyes braut á Garðari í teignum. Kristófer fékk að launum sitt annað gula spjald og var vikið af velli. Garðar fór á vítapunktinn öðru sinni í leiknum og jafnaði metin með sínu þriðja marki.

Aðeins mínútu síðar áttu Skagamenn langa sendingu sem rataði alla leið inn fyrir vörn Fram. Þar kom aðvífandi Ólafur Valur sem var kominn einn í gegn. Með góðri fyrstu snertingu fór hann framhjá markmanninum. Hann var í litlu jafnvægi og í þröngu færi en kláraði færið vel, framhjá varnarmanni sem kominn var á marklínuna. Tryggði hann Skagamönnum ótrúlegan 4-3 sigur og áframhaldandi þátttöku í bikarnum.

Dregið verður í 16 liða úrslitum bikarsins á morgun og þá kemur í ljós hverjir andstæðingar Skagamanna verða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir