Jafntefli í fyrsta leik Víkings

Víkingur Ólafsvík hóf keppni í 1. deild kvenna í knattspyrnu síðasta laugardag. Víkingskonur ferðuðust norður yfir heiðar og mættu liði Hamranna í Boganum á Akureyri.

Nokkuð jafnræði var með liðunum allan leikinn sem lauk með markalausu jafntefli. Bæði lið náðu að skapa sér ágætis marktækifæri þó hvorugu hafi tekist að skora. Víkingskonur voru heldur skæðari fram á við en heppnin var ekki alltaf með þeim fyrir framan mark heimakvenna. Þær vildu fá vítaspyrnu þegar brotið var á Unnbjörgu Jónu Ómarsdóttur í teignum. Dómari leiksins var hins vegar ekki á þeim buxunum að dæma víti og leikurinn hélt áfram. Víkingskonur áttu enn fremur skot í stöng og voru síðan aftur hársbreidd frá því að komast yfir þegar bjargað var á marklínu. Mary Essiful átti síðan þrumuskalla sem markvörður Hamranna varði glæsilega. Voru það bestu marktækifæri leiksins sem lauk með 0-0 jafntefli, sem fyrr segir.

Mega Víkingskonur þó vel við una að krækja í stig fyrir norðan. Ungt og efnilegt lið Víkings var að hittast í fyrsta sinn í heild sinni fyrir leikinn á Akureyri og á enn eftir að spila sig saman.

Eftir fyrstu umferðina er Víkingur í 6. sæti deildarinnar með eitt stig. Næsti leikur liðsins og fyrsti heimaleikur sumarsins fer fram föstudaginn 19. maí næstkomandi þegar Víkingur mætir liði Selfoss á Ólafsvíkurvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir