Markahrókurinn Garðar Gunnlaugsson var í byrjunarliði ÍA í fyrsta sinn í sumar. Hann er kominn á blað í mótinu því hann skoraði eina mark Skagamanna gegn KR. Ljósm. úr safni/ gbh.

ÍA tapaði gegn erkifjendunum

ÍA mætti erkifjendum sínum úr KR í þriðju umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikurinn fór fram á heimavelli KR í Frostaskjóli í Vesturbæ Reykjavíkur. Lauk honum með 2-1 sigri heimamanna sem voru sterkara lið vallarins allan leikinn.

KR-ingar mættu ákveðnir til leiks og komust yfir strax á 9. mínútu. Pálmi Rafn Pálmason átti þá góða sendingu fyrir mark Skagamanna. Hafþór Pétursson og Kennie Chopart börðust um boltann. Hafþór varð fyrir því óláni að skalla boltann aftur fyrir sig og í eigið mark, óverjandi fyrir Ingvar Kale í markinu.

Heimamenn voru sterkari eftir að þeir komust yfir en færin voru ekkert sérstaklega mörg. Þeir áttu skot rétt yfir markið beint úr aukaspyrnu rétt utan teigs og skömmu fyrir hálfleik átti Óskar Örn Hauksson þrumuskot sem Ingvar varði vel í markinu. Á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu Skagamenn hins vegar dauðafæri eftir skyndisókn. Stefán Teitur Þórðarson átti góðan sprett, lék á Indriða Sigurðsson í vörn KR-inga og lagði boltann á Garðar Gunnlaugsson en skot hans yfir markið.

KR-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og fengu dauðafæri strax á 52. mínútu eftir frábært þríhyringaspil í teignum. Óskar Örn fékk síðan boltann á markteig en einhvern veginn tókst honum að skófla boltanum yfir markið. Óskar Örn bætti hins vegar fyrir mistök sín nokkrum mínútum síðar þegar hann kom KR í 2-0. Hann fékk boltann fyrir utan teiginn vinstra megin, lék á tvo varnarmenn ÍA og þrumaði boltanum í fjærhornið.

Leikurinn datt aðeins niður eftir seinna mark KR-inga, sem voru þó áfram sterkara lið vallarins. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Skagamenn náðu að minnka muninn á 85. mínútu. Hallur Flosason átti hættulega fyrirgjöf sem Stefán Logi Magnússon í marki KR kýldi frá á sama tíma og Albert Hafsteinsson reyndi við boltann. Albert steinlá eftir samstuðið og dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu. KR-ingar vildu meina að Stefán hefði verið á undan í boltann en dómarinn ekki í vafa. Víti skyldi það vera. Á punktinn steig Garðar Gunnlaugsson og hann skoraði af miklu öryggi og minnkaði muninn í 2-1.

Skagamenn efldust við markið, eygðu skyndilega von á að fá eitthvað út úr leiknum en tókst ekki að skapa sér almennileg færi. Leiknum lauk því með 2-1 sigri KR-inga.

ÍA er án sigurs eftir fyrstu þrjá leiki sumarsins og sitja við botn deildarinnar án stiga ásamt Breiðabliki. Næst leikur ÍA mánudaginn 22. maí næstkomandi þegar liðið mætir Grindvíkingum á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir