86 starfsmönnum HB Granda sagt upp

Forsvarsmenn HB Granda hafa tilkynnt fulltrúum Verkalýðsfélags Akraness og starfsmönnum í fiskvinnslu fyrirtækisins á Akranesi um uppsagnir 86 starfsmanna botnfiskvinnslu fyrirtækisins frá og með næstu mánaðamótum. Botnfiskvinnslunni á Akranesi verður lokað 1. september næstkomandi og hún sameinuð vinnslunni í Reykjavík.

Greint var frá þessu á fundi forsvarsmanna fyrirtækisins með starfsmönnum sem hófst laust eftir kl. 15:00 í dag. Fundinum er ólokið en hluti starfsfólks HB Granda hefur þó yfirgefið fundinn.

 

Uppfært kl. 15:50

Starfsfólki í botnfiskvinnslu, sem sagt verður upp um næstu mánaðamót, verður boðið að sækja um ýmis önnur störf hjá HB Granda og dótturfyrirtækjum þess á Akranesi og í Reykjavík. „Vonir standa til að hægt verði að bjóða öllu starfsfólki sem þess óskar starf við hæfi,“ segir í tilkynningu á vef HB Granda. Þá segir að starfsfólk sem ekki fær vinnu við hæfi bjóðist aðstoð við atvinnuleit á vegum HB Granda. „HB Grandi rekur eftir sem áður uppsjávarvinnslu, fiskimjölsverksmiðju og dótturfélögin Norðanfisk og Vignir G. Jónsson á Akranesi. Félagið mun leggja kraft í að efla þessar rekstrareiningar og fullvinnslu sjávarafurða á Akranesi.“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir