„Allt að smella saman á hárréttum tíma“

„Það er komin eftirvænting í hópnum eftir mótinu, það eina sem mætti lagast fyrir mót er veðrið. Það hefur ekki verið eins og við vildum helst hafa það, en það breytir því ekki að flautað verður til leiks á sunnudaginn og við hlökkum til,“ segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, í samtali við Skessuhorn. Síðdegis á sunnudaginn hefst keppni í Pepsideild karla í knattspyrnu með þremur leikjum. Einn þeirra er leikur ÍA og Íslandsmeistara FH á Akranesvelli. Því næst mætir liðið Val og síðan KR í þriðju umferðinni. Aðspurður um markmið sumarsins segir þjálfarinn eitt markmiðanna vera að byrja mótið betur en undanfarin tvö ár.

„Þó prógrammið fyrstu umferðirnar virðist erfitt fyrirfram þá getur það verið kostur líka. Þessi lið eru rétt eins og við að byrja mótið og gætu átt eftir að finna taktinn sinn, veðrið eins og það er og vellirnir eru ekki orðnir tilbúnir í fyrstu umferðunum. Ég held að það sé alveg klárlega tækifæri fyrir okkur til að stríða þessum sterku liðum í upphafi móts. Við erum hvergi bangnir þó það líti kannski þannig út á pappírum að fyrstu leikirnir verði erfiðir,“ segir hann. „Önnur markmið sumarsins eru að halda áfram að bæta og þróa liðið og ná meiri stöðugleika eftir svolítið kaflaskipt tímabil í fyrra. Vonandi mun að skila sér í því að við komumst ofar á töfluna en síðasta sumar,“ segir Gunnlaugur, en ÍA hafnaði í 8. sæti í deildinni á síðasta ári.

 

Ánægður með hópinn

Gunnlaugur kveðst ánægður með leikmannahópinn. „Hann hefur tekið meiri breytingum en maður hefði helst viljað, við höfum lent í áföllum í vetur og þurft að bregðast við þeim og þess vegna hafa breytingarnar verið fleiri en við hefðum óskað okkur. En það er ekkert við því að gera, við verðum að bregðast við því og ég er ánægður með hópinn,“ segir hann. „Hópurinn hefur slípast vel saman. Við spiluðum til dæmis fínan æfingaleik gegn Breiðabliki á laugardaginn þar sem við gerðum afar vel í fyrri hálfleik. Þannig að þetta virðist allt vera að smella saman á hárréttum tíma,“ segir Gunnlaugur.

 

Liðið stígi upp

Fyrirliði liðsins til margra ára, Ármann Smári Björnsson, tilkynnti fyrr í vor að hann væri hættur knattspyrnuiðkun. Gunnlaugur segir erfitt að fylla skarð hans. „Ármann hefur verið óumdeildur leiðtogi liðsins síðustu ár, fyrirliði og hefur spilað vel, sérstaklega átti hann gríðarlega gott sumar í fyrra. Það gefur augað leið að það er ekki auðvelt að finna leikmann sem stígur í hans spor, og ég held að hans skarð verði ekki fyllt eingöngu með því að finna mann í stöðuna hans. Það finnst ekki týpa eins og Ármann, hann hefur mótast í liðinu og samfélaginu svo lengi, hafði mikla reynslu að miðla. Ég tel að til að fylla hans skarð þurfi liðið sem heild þarf að stíga upp og þjappa sér saman,“ segir Gunnlaugur.

ÍA varð fyrir öðru áfalli skömmu fyrir áramót þegar markvörðurinn Árni Snær Ólafsson sleit krossband í æfingaleik. Óvíst er hversu mikið Árni getur leikið með liðinu í sumar. Til liðsins var fenginn reynslumikill markvörður, Ingvar Þór Kale og mun hann berjast við Pál Gísla Jónsson um stöðuna á milli stanganna. Hann var áður talinn í hópi bestu markvarða deildarinnar en átti erfitt uppdráttar á síðasta ári. „Síðasta tímabil hjá Ingvari gekk ekki upp eins og hann vildi. Hann veit það sjálfur að hann þarf að stíga upp og sanna sig. Ég lít á það sem kost fyrir okkur að hafa leikmann sem vill ólmur sína hvað í hann er spunnið, auk þess sem það er mikill kostur að hafa tvo reynda markmenn að stóla á,“ segir Gunnlaugur.

 

Hlakkar til að sjá fólk á vellinum

Það er auðheyrt á þjálfaranum að hann bíður mótsins með eftirvæntingu og hefur trú á sínu liði. Hann vill hvetja Skagamenn til að fylkja sér á bakið liðið í sumar. „Ég hlakka til að sjá fólk á vellinum og hvet Skagamenn til að styðja við bakið á liðinu í blíðu og stríðu. Við munum lenda í áföllum í sumar eins og gengur og gerist í boltanum og þá er stuðningurinn strákunum mikilvægur, bæði innan vallar og úti í bæ. En ég vona að við náum að búa til meiri stöðugleika og vonandi skilar það okkur ofar í töfluna að móti loknu,“ segir Gunnlaugur Jónsson að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir