Snæfell komið með bakið upp við vegg

Snæfellskonur urðu að játa sig sigraðar gegn Keflavík í gærkvöldi, í öðrum leik liðanna í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. Keflavík hefur því tvo sigra gegn engum og getur tryggt sér titilinn með sigri í Stykkishólmi næstkomandi sunnudag.

Leikurinn fór fjörlega af stað og það voru Keflavíkingar sem voru sterkari í upphafi. Eftir aðeins fjögurra mínútna leik höfðu þær níu stiga forystu, 14-5. Snæfellskonur létu góða byrjun heimaliðsins hins vegar ekki á sig fá og jöfnuðu í 14-14 á næstu þremur mínútum leiksins. Að loknum fyrsta leikhluta leiddi Keflavík með fjórum stigum, 24-20.

Áfram var jafnt á með liðunum í öðrum fjórðungi. Keflavík náði smá rispu á fyrri hluta hans og náðu níu stiga forskoti. En það varði ekki lengi, Snæfell var fljótt að komast upp að hlið heimaliðsins að nýju og minnkaði muninn í tvö stig seint í leikhlutanum. Keflavík skoraði síðan síðustu körfu hálfleiksins og leiddi því með fjórum stigum í hléinu, 40-36.

Eltingaleikur liðanna hélt áfram eftir hléið, Keflavík leiddi en Snæfell fylgdi fast á eftir. Snæfell minnkaði muninn í eitt stig, 48-47, þegar þriðji leikhluti var hálfnaður en Keflavíkurvörnin hélt Snæfelli stigalausu næstu mínúturnar og hafði því sex stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 53-47.

Snæfellskonur mættu gríðarlega ákveðnar til lokaleikhlutans og gerðu sig líklegt til að taka forystuna. Keflavík náði að halda þeim í skefjum en þegar fjórar mínútur voru eftir komst Snæfell yfir í fyrsta sinn í leiknum í 57-58. Forystan entist þeim hins vegar ekki lengi. Keflvíkingar komust yfir að nýju og leiddu með fimm stigum þegar rúm hálf mínúta lifði leiks. Þær kláruðu síðan leikinn af vítalínunni á lokasekúndum leiksins og höfðu sex stiga sigur, 67-61.

 

Tölfræði

Bryndís Guðmundsdóttir var stigahæst Snæfells með 22 stig og tók 8 fráköst að auki. Aaryn Ellenberg var með 20 stig, 9 stoðsendingar og 8 fráköst en aðrar höfðu minna.

Hjá Keflvíkingum var Ariana Moorer atkvæðamest með 20 stig og 15 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 11 stig og Þóranna Kika Hodge-Carr var með 10.

 

Langar mikið í nýja bikarinn

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, hafði orð á því í samtali við karfan.is eftir leik að litlu hlutirnir væru dýrir í jöfnum leikjum sem þessum. „Báðir leikir eru búnir að vera þannig að þetta er bara „bouncing on the rim“,“sagði Ingi og á þannig við að hlutirnir geti fallið hvoru megin sem er. „Við fengum mýmörg tækifæri eftir að hafa komist yfir, 58-57, til að ná „kontról“ á leiknum en við bara nýttum okkur þau ekki, því miður,“ sagði Ingi. „En þetta eru tvö jöfn lið, skemmtileg lið og það lið sem kemur með betra framlag frá liðsheildinni það vinnur leikinn,“ bætti hann við og hafði orð á því að Snæfell ætlaði sér ekkert annað en sigur í þriðja leik liðanna í Stykkishólmi á sunnudag og vænka hag sinn í einvíginu. „Þessi nýi bikar er gríðarlega fallegur og okkur langar mikið í hann.“

 

Næsti leikur í Hólminum

Þriðji leikur Snæfells og Keflavíkur í úrslitum Íslandsmótsins fer fram í Stykkishólmi á sunnudag, 23. apríl og hefst hann kl. 19:15. Sigra þarf þrjá leiki til að hampa titlinum og því er að duga eða drepast fyrir Snæfell.

Líkar þetta

Fleiri fréttir