Samið við Sæferðir um Flóasiglingar

Tvö tilboð bárust ferjusiglingar milli Akraness og Reykjavíkur. Hagstæðara tilboðið áttu Sæferðir og var gengið að því. Stefnir fyrirtækið að því að hefja siglingar seinni hlutann í maí, en skv. útboðsgögnum skulu siglingar hefjast eigi síðar en 1. júní næstkomandi. Um er að ræða tilraunaverkefni til sex mánaða með stuðningi sveitarfélaganna tveggja, Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, sagði í samtali við blaðamann Skessuhorns að fyrirtækið bæri væntingar til þess að framtíð sé í ferjusiglingum milli Akraness og Reykjavíkur. Því hafi fyrirtækið tekið á leigu ferju með kauprétti. Skipið er tvíbytna og tekur að sögn Gunnlaugs 97 farþega og getur siglt á 24 sjómílna hraða á klukkustund. Er því búist við því að siglingin yfir Faxaflóann taki á bilinu 20 til 30 mínútur, eftir sjólagi og aðstæðum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir