Meðfylgjandi mynd var tekin um nóttina og sýnir aðstæður á Klettshálsi. Glittir í bílinn um fimmtíu metra neðan við veginn og fjöldi fiskkara á víð og dreif. Bíllinn flutti afskurð úr laxavinnslu og var á leið í Borgarnes. Ljósm. Villi.

Óhöpp í umferðinni að kvöldi síðasta vetrardags

Að kvöldi síðasta vetrardags voru afar erfiðar aðstæður til aksturs á fjallvegum á norðvestanverðu landinu. Á Holtavörðuheiði þurfti til að mynda fjöldi björgunarsveitarmanna að aðstoða vegfarendur. Þar fór flutningabíll útaf veginum. Var heiðinni að endingu lokað fyrir umferð og ökumönnum beint að aka um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku. Síðar þetta sama kvöld fór svo fólksbíll útaf á Bröttubrekku. Á Klettshálsi varð alvarlegasta óhappið um níuleitið um kvöldið. Þá fór vörubíll með fiskkör útaf veginum og valt um fimmtíu metra niður snarbratta hlíð. Tveir voru í bílnum og þurfti að beita klippum tækjabíls úr Búðardal á stýrishús flutningabílsins til að ná mönnunum út. Viðbragðsaðilar frá Reykhólum, Búðardal og Patreksfirði voru kallaðir til vegna slyssins. Fólkið í bílunum var ekki talið alvarlega slasað en var flutt með tveimur sjúkrabílum frá Búðardal á sjúkrahús í Reykjavík. Að sögn viðbragðsaðila voru afar slæmar aðstæður til aksturs á Klettshálsi þetta kvöld; hríð og krapi á veginum. Lán í ólani var að bíllinn stoppaði þessa fimmtíu metra neðan við veginn því nokkru neðar tók við enn meira fall.

Líkar þetta

Fleiri fréttir