Jaroslaw Dobrowolski, Mikolaj Ondycz, Justyna Ondycz og Piotr Iechonski framan við Matarlist. Ljósm. af.

Nýr veitingastaður opnaður í Ólafsvík

Síðastliðinn laugardag opnuðu hjónin Justyna Ondycz og Mikolaj Ondycz veitingastaðinn Matarlist við Ólafsbraut í Ólafsvík. Þar var áður veitingastaðurinn Hobbitinn. Justyna segir í samtali við Skessuhorn að eigin veitingarrekstur hafi verið draumur hennar í mörg ár og þarna væri kjörinn staður til þess að láta draum sinn rætast. „Við hjónin höfum verið lengi í þessum bransa og síðustu ár hef ég verið yfirþjónn á Hótel Búðum og maðurinn kokkur þar. Hann mun starfa áfram á Búðum en við erum með tvo matsveina og getum kallað fleiri til ef þarf á að halda. Við erum mest að höfða til heimafólks og er allt hráefni héðan úr Snæfellsbæ. Við kaupum engar unnar vörur,“ segir Justyna og bætir við að þau munu hafa fjölbreyttan matseðil sem muni höfða til flestra. „Viðtökurnar voru framar öllum vonum þegar við opnuðum á laugardaginn. Fiskurinn kláraðist svo við urðum að reyna að ná í meira,“ sagði Justyna.

Fréttarritari Skessuhorns prófaði staðinn og getur staðfest að maturinn var í toppklassa og heimalagaða skyrið var hrein snilld.

Líkar þetta

Fleiri fréttir