Aaryn Ellenberg fór mikinn í liði Snæfells. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfell tapaði í æsispennandi leik

Snæfell og Keflavík mættust í gær fyrsta leik úrslitaviðureignar Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Stykkishólmi og var leikurinn afar jafn og spennandi. Að lokum fór þó svo að Keflavík hafði betur, 69-75 og tók þar með forystuna í einvíginu og náði heimavallarréttinum.

 

Gangur leiksins

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum. Liðin skiptust á að leiða en Snæfell var yfir að leikhlutanum loknum, 22-18. Keflvíkingar náðu góðum kafla í upphafi annars fjórðungs, tóku forystuna og leiddu allt til hálfleiks. Forskot þeirra var þó aldrei nema nokkur stig, Snæfell fylgdi gestunum eins og skugginn. Í hléinu leiddi Keflavík með þremur stigum, 34-37.

Snæfellskonur byrjuðu síðari hálfleikinn betur og náðu forystunni á ný snemma í þriðja leikhluta. Þær komust mest sjö stigum yfir um miðjan leikhlutann áður en Keflavík jafnaði í 53-53 seint í þriðja. Snæfell átti lokaorðið í fjórðungnum og leiddi með tveimur stigum að honum loknum, 56-54. Upphófst þá æsispennandi lokafjórðungur sem einkenndist af mikilli baráttu. Snæfell leiddi en Keflavík fylgdi fast á hæla þeirra, forskot Snæfells var eitt og tvö stig þar til á lokamínútum leiksins. Keflavík jafnaði í 63-63 þegar þrjár mínútur lifðu leiks en Snæfell komst alla leið að körfunni í næstu sókn og tveimur stigum yfir. Næstu skot liðanna geiguðu, þar til tvær mínútur voru eftir að Keflvíkingar settu þrist og komust yfir. Liðin settu síðan sitt hvora körfuna áður en gestirnir smelltu öðru þriggja stiga skoti þegar rúm mínúta lifði leiks og staðan orðin 67-71. Snæfellskonur töpuðu boltanum í næstu sókn en unnu hann aftur og komust alla leið að körfunni og minnkuðu muninn í tvö stig þegar 35 sekúndur voru eftir. Keflvíkingar tóku leikhlé og stilltu upp í langa sókn sem endaði með því að þær gerðu endanlega út um leikinn með þriggja stiga körfu. Síðustu stig leiksins komu síðan af vítalínunni og lokatölur í Stykkishólmi urðu 69-75.

 

Tölfræðin

Aaryn Ellenberg fór mikinn í liði Snæfells. Hún skoraði 42 stig og tók 10 fráköst en aðrir leikmenn Snæfells náðu sér ekki á strik sóknarlega og komust ekki í tveggja stafa tölu á stigatöflunni. Bryndís Guðmundsdóttir var með 9 stig og 10 fráköst og Andrea Björt Ólafsdóttir lauk leik með 8 stig.

Thelma Dís Ágústsdóttir var stigahæst gestanna með 23 stig og 10 fráköst en Ariana Moorer setti upp myndarlega þrennu; 20 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar. Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 14 stig og tók 7 fráköst.

 

Mjög jöfn lið

Með sigrinum tókst Keflavík að stela heimavallarréttinum í einvíginu og næstu tveir leikir liðanna fara því fram suður með sjó. „Keflavík gerði mjög vel. Þær hittu gríðarlega stórum skotum í lokin sem reyndist vera munurin á liðunum í kvöld,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, í samtali við Vísi eftir leik. „Nú þurfum við að fara yfir hvað við ætlum að gera og hvernig við ætlum að gera það. Við þurfum að koma fleirum í leikin hjá okkur. Þetta eru mjög jöfn lið og litlir hlutir skipta stórkostlegu máli. Þannig að núna þurfum við að laga þessa hluti og fara með það til Keflavíkur og gera betur.“

Næst mætast liðin á morgun, sumardaginn fyrsta, í Keflavík og hefst leikurinn kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir