Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósm. kylfingur.is.

Fataðist flugið á lokahringnum

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, hafnaði í 50. sæti á Lalla Meryem Cup mótinu sem fram fór í Marokkó nú um páskana. Mótið er hluti af LET Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu. Var þetta annað mót tímabilsins hjá Valdísi á mótaröðinni.

Valdís lék fyrsta hring mótsins á 76 höggum, eða fjórum yfir pari en flaug í gegnum niðurskurðinn með frábærri spilamennsku á öðrum hring. Hann lék hún á 71 höggi, einu undir pari og komst því áfram í mótinu á samtals þremur yfir pari. Þriðja hringinn fór hún á 73, einu höggi yfir pari og lyfti sér upp í 26. sætið fyrir lokahringinn, sem leikinn var í gær. Valdísi fataðist hins vegar flugið á lokahringnum þar sem hún spilaði á 77 höggum, eða fimm yfir pari og samtals lauk hún því keppni í mótinu í 50. sæti á níu höggum yfir pari.

„Ég er með blandaðar tilfinningar eftir þetta mót,“ skrifaði Valdís á Facebook-síðu sína eftir mótið. „Skorin sem ég spilaði á endurspegla enganvegin spilamennsku mína í þessu móti og það er svekkjandi. Pútterinn minn var ískaldur allt mótið og það reyndi heldur betur á þolinmæðina að vera stöðugt í fuglafærum en setja varla eitt einasta pútt ofan í. Stundum er það víst þannig! Seinni 9 í dag [sunnudag; innsk. blaðamanns] voru ekki góðar og þær hreinlega eyðilögðu mótið fyrir mér.“

Næsta mót Valdísar á LET Evrópumótaröðinni fer fram á Spáni og hefst það á sumardaginn fyrsta, 20. apríl.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Vesturgata malbikuð

Síðdegis í dag var hafist handa við að malbika Vesturgötu á Akranesi, en umfangsmiklar framkvæmdir við endurnýjun götunnar frá Stillholti... Lesa meira