Haukadalur að nóttu til. Myndin er tekin við afleggjarann heim að Jörva. Ljósm. Dagur Þórarinsson.

Vetur og myrkur í Haukadal

Í Dölum er í undirbúningi ferðaþjónustuverkefnið Iceland Up Close – Vetur og myrkur í Haukadal. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða verkefni í vetrarferðaþjónustu og að því standa Bjarnheiður Jóhannsdóttir og Reynir Guðbrandsson á Jörva, Ásta Ósk Sigurðardóttir og Jóel Bæring Jónsson á Saursstöðum og Sigurbjörg Kristmundsdóttir og Pétur Guðsteinsson á Giljalandi. „Okkur langar að bjóða upp á ferðir á haustin og veturna, gera út á myrkrið, nánd við náttúruna og bjóða fólki að taka þátt í því sem er að gerast í sveitinni,“ segir Bjarnheiður á Jörva í samtali við Skessuhorn. „Á öllum bæjunum þremur er gisting í smáum stíl og við höfum hugsað okkur að starfa að Iceland Up Close utan háannatíma í ferðaþjónustu. Starfsemi verður þannig í október og nóvember og síðan aftur í febrúar og mars. Með þessu sjáum við tækifæri til að lengja tímabilið og gera ferðaþjónustuna nær því að vera heilsársstarf hjá okkur,“ segir hún.

Verkefnið er enn á þróunarstigi en að sögn Bjarnheiðar verður þemað vetur, myrkur, þögn og rólegheit. „Hugsunin er að bjóða upp á öðruvísi ferðir, rólegheitaferðir, gönguferðir í nágrenninu. Hér verður enginn asi og allt fær sinn tíma. Hóparnir verða litlir, helst viljum við ekki taka á móti mikið fleiri en tíu manns í einu. Það skiptir okkur máli að umgjörðin sé afslöppuð, þjónustan persónuleg og fólk fái að kynnast okkur svolítið,“ segir hún.

 

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir