Jón Heiðar Jónsson með höndina í umbúðum. Eftir er að koma í ljós hversu mikla tilfinningu hann fær í höndina og fingur.

Heppinn að vera á lífi eftir alvarlegt sagarslys

„Ég var að saga spýtur með handhjólsöginni minni úti í bílskúr og þá allt í einu fór sögin á móti mér og inn í höndina rétt fyrir neðan úlnlið. Ég man ekki mikið eftir augnablikunum í kjölfarið en sögina vantaði tæpan sentimeter til að komast í gegn,“ segir Jón Heiðar Jónsson íbúi á Akranesi í samtali við Skessuhorn. Hann lenti í alvarlegu vinnuslysi fyrir um hálfum mánuði við störf heima fyrir.

„Ég var eðlilega í miklu losti við þetta og voru fyrstu hugleiðingar að keyra sjálfur upp á spítala. Síðan áttaði ég mig á því hvað hafði gerst. Það fossblæddi úr hendinni og batt ég um skurðinn með spotta til að stöðva blæðinguna. Ég hringdi síðan í 112 og eftir um þrjár mínútur voru sjúkraflutningamenn komnir að sækja mig,“ segir Jón Heiðar en Neyðarlínan hélt sambandi við hann þangað til sjúkrabílinn kom heim til hans. Jón Heiðar var fluttur rakleiðis á sjúkrahúsið á Akranesi þar sem honum var gefið morfín. „Síðan var mér ekið beint suður á Landspítalann þar sem ég var tekinn í aðgerð.“

Hann segir aðgerðina hafa lukkast vel. „Hún tók um sex tíma og gekk rosalega vel. Í fyrstu voru slagæðarnar tengdar saman til að koma blóði í höndina og síðan voru sinar og æðar tengdar saman og beinin boltuð. Mér skilst að tíminn skipti öllu máli í svona tilvikum og þá hafði eitthvað að segja að höndin fór ekki öll af,“ bætir Jón Heiðar við. Hann vill koma á framfæri þakklæti til heilbrigðisstarfsfólks, sjúkraflutningamanna og lögreglu fyrir hjálpina.

 

Aldrei of varlega farið

Jóns bíður nú langt endurhæfingarferli. „Það tekur langan tíma fyrir höndina að gróa og þá á eftir að koma í ljós hvaða áhrif slysið hefur til lengri tíma litið. Ég er kominn með hreyfigetu í höndina, þó takmörkuð sé. Hins vegar verður tíminn að leiða í ljós hvort og hversu mikið skyn ég fæ aftur í hana. Ég er í raun heppinn að vera á lífi og feginn að hafa haft rænu á að hringja í 112,“ segir Jón sem segir mikilvægt að ræða um slys eins og þetta.  „Fólk er að vinna alla daga með alls konar verkfæri. Það er aldrei of varlega farið,“ segir hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir