Kristrún Sigurjónsdóttir í baráttu við leikmenn Keflavíkur. Ljósm. Skallagrímur.

Skallagrímskonur urðu að játa sig sigraðar í oddaleik

Skallagrímskonur hafa lokið þátttöku í Íslandsmótinu í körfuknattleik þetta árið, eftir tap gegn Keflavík í oddaleik um sæti í úrslitaviðureigninni um Íslandsmeistaratitilinn. Oddaleikurinn fór fram í Keflavík í gærkvöldi. Eftir mjög jafnan fyrri hálfleik reyndust Keflvíkingar sterkari í þeim síðari. Skallagrímskonur gerðu góða tilraun til að komast aftur inn í leikinn í lokafjórðungnum en höfðu ekki erindi sem erfiði. Keflavík hafði að lokum 16 stiga sigur, 80-64.

 

Gangur leiksins

Líf og fjör var á upphafsmínútum leiksins og varnarleikurinn, sem hefur verið aðalsmerki beggja liða í einvíginu, var í aukahlutverki. Þess í stað fékk sóknarleikur beggja liða að njóta sín. Mikið var skorað en aldrei munaði meira en fjórum stigum á liðunum í upphafsfjórðungnum og staðan var jöfn að honum loknum, 22-22. Það sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Liðin sóttu og staðan var hnífjöfn, allt þar til annar leikhluti var hálfnaður. Þá náðu Keflvíkingar heldur yfirhöndinni, leiddu með þremur stigum þar til á lokamínútu fyrri hálfleiks, þar sem liðið skoraði sex stig og tókst að fara með átta stiga forskot í hléið, 48-40. Þannig lauk gríðarlega skemmtilegum fyrri hálfleik í þessum oddaleik, þar sem mikið var skorað og bæði lið sýndu gæði sín sóknarlega.

Keflavík náði 13 stiga forskoti snemma í síðari hálfleik. Þær keyrðu upp hraðann í leiknum, hertu tökin í vörninni og héldu Skallagrímskonum stigalausum á fimm mínútna kafla í leikhlutanum, en juku forskotið hægt og býtandi á meðan. Með nokkrum góðum körfum undir lok leikhlutans tókst Skallagrími þó að minnka muninn í 14 stig fyrir lokafjórðunginn, 66-52.

Skallagrímskonur komu mjög ákveðnar til lokafjórðungsins, tókst að halda Keflavíkurliðinu stigalausu fyrstu mínúturnar og hleypa mikilli spennu í leikinn að nýju. Þær minnkuðu muninn í sex stig þegar komið var fram yfir miðjan leikhlutann en nær komust þær ekki. Keflavíkurliðið lék af mikilli yfirvegun síðustu mínúturnar og gaf ekki frekari færi á sér. Liðið jók forskot sitt að nýju á síðustu mínútunum og sigraði 80-64.

Ragnheiður Benónísdóttir skoraði 14 stig fyrir Skallagrím og tók 5 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir var með 12 stig og Jóhanna Björk Sveinsdóttir skoraði 11 stig og tók 6 fráköst. Ariana Moorer var atkvæðamest Keflavíkinga með 27 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar og Erna Hákonardóttir skoraði 20 stig.

 

Stoltur af liðinu

Keflvíkingar sigruðu viðureignina þar með 3-2 og mæta Snæfelli í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik. Skallagrímskonur hafa hins vegar lokið þátttöku í mótinu að þessu sinni en mega vel við una. Þær hafa rækilega stimplað sig inn sem eitt besta körfuknattleikslið landsins. „Þegar það voru aðeins þrjár mínútur eftir og við vorum sex stigum undir þá var þetta mjög tæpt en Keflavík spilaði betur í kvöld. Þær eiga hrós skilið,“ sagði Manuel Rodriguez, þjálfari Skallagríms, í samtali við Vísi eftir leikinn en kvaðst heilt yfir vera ánægður með veturinn og sagðist vilja vera áfram með liðið. „Ég er mjög stoltur af mínu liði, þær eru búnar að standa sig vel á þessu tímabili. Mér líður vel í Borgarnesi. Ég er mjög ánægður með liðið og stuðninginn. Ég vil þakka fólkinu þar fyrir.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir