Það hvílir mikill hátíðleiki yfir lestri Passíusálmanna í Saurbæ á föstudaginn langa. Það er prestakallið sem stendur fyrir viðburðinum en Steinunn Jóhannesdóttir skipuleggur.

Endurnýja hjúskaparheitið við altari Hallgrímskirkju

Í dag, föstudaginn langa, ætla leikararnir Steinunn Jóhannesdóttir og Sigurður Karlsson ætla að skipta með sér flutningi Passíusálmanna í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Áætla þau að hefja lestur klukkan 13:30 og áætla að ljúka honum um klukkan 18:30. Um tónlistarflutning í upplestrarhléum sér Erla Rut Káradóttir.

Svipmynd úr uppfærslu á leikritinu um Tyrkja-Guddu í Þjóðleikhúsinu 1983-84.

Þau Steinunn og Sigurður eru bæði vel kunnug skáldskap Hallgríms Péturssonar og sögu hans og Guðríðar Símonardóttur, því þau léku hlutverk þeirra hjóna í sýningu Þjóðleikhússins á Tyrkja-Guddu, leikriti sr. Jakobs Jónssonar, leikárið 1983-84. Hin síðari ár hafa bæði fengist við ritstörf hvort í sínu lagi. Steinunn hefur m.a. fjallað um tímabil í ævi Guðríðar og Hallgríms í heimildaskáldsögunum Reisubók Guðríðar Símonardóttur og Heimanfylgju. Sigurður hefur verið mikilvirkur þýðandi bókmennta úr finnsku og hlotið margvíslega viðurkenningu og lof fyrir verk sín. Reyndar kom hann nýverið á skjá landsmanna þegar hann lék föðurinn í sjónvarpsþáttunum Föngum sem sýndir voru á RUV. Steinunn og Sigurður hafa aldrei leikið saman eftir þennan flutning í Þjóðleikhúsinu árið 1984 fyrr en nú á föstudaginn langa. Í gamni segjast þau því ætla að endurnýja hjúskaparheitið frá uppfærslunni á Tyrkja-Guddu.

 

Vísað til sögunnar

Vorið 1651 settust hjónin Hallgrímur Pétursson og Guðríður Símonardóttir að í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd þar sem Hallgrímur tók við prestsskap. Þar áttu þau eftir að lifa sín bestu ár saman og þar vann Hallgrímur sín stærstu afrek á sviði skáldskaparins. Hann lauk við að yrkja Passíusálmana árið 1659 og sendi þá kollega sínum til umsagnar, sr. Jóni Jónssyni á Melum í Melasveit. Sr. Jón gaf sálmunum bestu meðmæli og hvatti Hallgrím til þess að dreifa þeim víðar til þess að „svoddan ljós mætti fleirum lýsa“. Skáldið tók til við að gera afrit vorið 1660 og sendi Passíusálmana þremur konum, sem hann þekkti vel til, þeim Ragnhildi Árnadóttur, sem fædd var og uppalin á Ytra-Hólmi, Helgu Árnadóttur í Hítardal og mágkonu hennar Kristínu Jónsdóttur í Einarsnesi. Allar voru konur þessar giftar lærðum mönnum. Ári síðar sendi Hallgrímur fjórða handritið biskupsdótturinni í Skálholti, Ragnheiði Brynjólfsdóttur.

Þegar Hallgrímur lauk við að yrkja Passíusálmana var rúmlega öld liðin frá því að Siðaskiptin voru formlega lögfest á Íslandi. Með Siðaskiptunum voru klaustur lögð niður og aflétt einlífiskröfu presta, þeir máttu nú ganga í hjónaband og til varð ný stétt, stétt prestskvenna og prestsheimili eða prestssetur urðu mennta- og menningarmiðstöðvar, sem konur veittu margvíslega forystu. Fyrirmyndin var hjónaband fyrrum munksins og nunnunnar Marteins Lúthers og Katarinu af Bora og heimilishald þeirra í Wittenberg.  „Það er full ástæða til að minnast þess hvernig skáldið Hallgrímur Pétursson treysti á fulltingi kvenna við það að útbreiða hróður Passíusálmanna. Og það er ástæða til þess að minna á hlutverk prestskonunnar á 17. öld, þ.á.m. konu skáldsins, Guðríðar Símonardóttur,“ segir Steinunn Jóhannesdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir