Beðið eftir löndun í Ólafsvík. Ljósm. úr safni/ af.

Strandveiðikvóti aukinn um 200 tonn

Aflaheimildir til strandveiða á sumri komanda verða auknar um 200 tonn frá síðasta ári og kemur aukningin öll í hlut D svæðis, sem nær frá Hornafirði til Borgarfjarðar. Heildar aflaheimildir á svæðinu verða því 1500 tonn.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra gaf í gær út reglugerð um strandveiðitímabilið í sumar. Leyfilegur heildarafli verður 9.200 tonn. Tímabilið hefst 2. maí og stendur til 31. ágúst. Önnur ákvæði um veiðisvæði, veiðidaga, hámarksafla á dag og fjölda handfærarúlla eru óbreytt frá fyrra ári, ef frá er talin áðurnefnd aukning á svæði D.

Aflaheimildir eru sem fyrr mestar á svæði A, sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, en 3.410 tonn koma í hlut þess svæðis. Svæði B fær 2086 tonn, en það nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps og svæði C, frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps, fær 2204 tonn.

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að heildar aflamark strandveiða hafi verið 4.000 tonn þegar strandveiðar hófust árið 2009 en verði nú 9.200 tonn, sem fyrr segir. Reikna megi með því að útgefin veiðileyfi á komandi strandveiðitímabili verði um 700 talsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir