Raðhúsin sem nú er verið að smíða á Húsafelli. Teikning: Nýhönnun.

Raðhús í byggingu á Húsafelli

Verið er að byggja raðhúsalengju með sex íbúðum á Húsafelli í Borgarfirði. Hótel Húsafell stendur að framkvæmdunum og að sögn Bergþórs Kristleifssonar framkvæmdastjóra er íbúðunum ætla að leysa þann húsnæðisvanda sem gerir atvinnurekendum á Húsafelli erfitt fyrir. „Við byrjuðum á raðhúsalengju með sex litlum íbúðum fyrir rúmri viku síðan og gengur vel. Nú er verið að smíða sperrur og grind. Þetta er timburhús sem Ómar Pétursson í Nýhönnun hannaði fyrir okkur og Hermann Daði Hermannsson smíðar,“ segir Bergþór í samtali við Skessuhorn.

Bergþór kveðst reikna með því að þessar íbúðir verði tilbúnar um miðjan júlí. Þá á aðeins eftir að koma húsunum á sinn stað. „Við byggjum á stöðuleyfi þangað til skipulagið hefur verið staðfest og hægt að veita byggingaleyfi á reitnum þar sem húsið á að standa. Skipulagið er á síðustu metrunum. Þangað til byggjum við húsin við verkstæðið hjá okkur. Þegar skipulagsmálin hafa verið afgreidd og húsin tilbúin þá er bara að koma þeim á staðinn. Það verður ekki mikið mál, stutt að fara og þau ættu að vera komin upp í hvelli,“ segir hann.

 

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir