Vin Diesel og Dwayne „The Rock“ Johnson verða í eldlínunni í nýjustu mynd The Fast and the Furious seríunnar. Samsett mynd: Skessuhorn/þit.

Heimsfrumsýning Fast 8 á Akranesi

Kvikmyndin Fate of the Furious, einnig þekkt sem Fast & the Furious 8, eða Fast 8, verður heimsfrumsýnd í Bíóhöllinni á Akranesi í kvöld, miðvikudaginn 12. apríl klukkan 18:00. Myndin verður frumsýnd í öðrum bíóhúsum hér á landi síðar sama kvöldið, sem og víða í Evrópu og næstu daga verður hún frumsýnd í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Asíu.
Kvikmyndin var sem kunnugt er að hluta til tekin upp á Akranesi síðasta sumar en einnig á Mývatni. Hafa glöggir kvikmyndaáhugamenn af Akranesi séð Sementsverksmiðjunni og Faxabrautinni bregða fyrir í „trailer“ fyrir myndina. Margir Skagamenn bíða því útgáfu hennar með eftirvæntingu. Leiða má líkur að því að þeir fjölmenni á sýningar Fast 8 til að berja augum á hvíta tjaldinu Vin Diesel, Dwayne „The Rock“ Johnson, Michelle Rodriguez, Charlize Theron, Scott Eastwood, Jason Statham og síðast en ekki síst Akranesi.
Seljist upp á frumsýninguna klukkan 18:00, eða ef áhugasamir bíógestir komast af einhverjum ástæðum ekki þá, má geta þess að önnur sýning er á dagskrá í Bíóhöllinni kl. 21:00 sama kvöld.

Líkar þetta

Fleiri fréttir