Eignarhald Þörungaverksmiðjunnar breytist

Bandaríska stórfyrirtækið DuPont hefur eignast meirihluta í Þörungaverksmiðjunni hf. á Reykhólum í gegnum kaup sín á heilsuvöruframleiðslu bandaríska fyrirtækisins FMC Corporation. FMC Corporation er skráð fyrir 71,6% hlutafjár Þörungaverksmiðjunnar, en Byggðastofnun á 27,7% hlut. Aðrir hluthafar eru um 70 talsins. Morgunblaðið greinir frá. Þar er haft eftir Magnúsi Helgasyni, sem situr í stjórn Þörungaverksmiðjunnar fyrir hönd Byggðastofnunar, að ekki sé gert ráð fyrir neinum breytingum starfsemi verksmiðjunnar á Reykhólum.

Nýtt eignarhald Þörungaverksmiðjunnar tengist samruna fyrirtækjanna DuPont og Dow Chemicals, sem kemur til framkvæmda á seinni hluta þessa árs. DuPont hefur selt hluta efnaframleiðslu sinnar til FMC og keypt á móti heilsuvöruframleiðsluna.

DuPont er eitt stærsta efnaframleiðslufyrirtæki í heimi. Það var stofnað í Delaware í Bandaríkjunum árið 1802 til að framleiða byssupúður. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að söluandvirði af vörum DuPont á síðasta ári nam 25 milljörðum Bandaríkjadala.

Líkar þetta

Fleiri fréttir