Flutningur á Sigurfara gekk að óskum og lítill leki við sjósetningu

Bráðabirgða lagfæringum á ytra byrði Kútters Sigurfara lauk á fimmtudaginn. Skipið var tekið af stöllum sínum við Byggðasafnið í Görðum og flutt í Akraneshöfn síðdegis í gær. Stærstu flutningabílar frá Bifreiðastöð ÞÞÞ voru notaðir til verksins og gekk aksturinn vel, en tók á sjötta tíma. Það var síðan krani frá Skóflunni hf. sem tók skipið og hífði niður í Akraneshöfn. Töluverðrar eftirvæntingar gætti meðal viðstaddra um hvort viðgerðir á ytra byrðinu hefðu tekist nægjanlega vel. Gladdi það viðstadda mjög að lekinn reyndist minniháttar og hægt að stöðva hann með hampi og sérstakri viðgerðatjöru sem flutt var sérstaklega inn frá Skotlandi .

Það er hópur velunnara skipsins, færeyskra og íslenskra, sem hóf í janúar síðastliðnum fjársöfnun með það að markmiði að gera kútterinn sjófæran að nýju þannig að hægt væri að sigla honum til áframhaldandi og varanlegra viðgerða. Það verk verður unnið í Helguvík en Norðurál hefur lagt til aðra af tveimur ónotuðum skemmum þar til að hýsa skipið. Siglt verður áleiðis til Helguvíkur klukkan 14 í dag. Með í för verður hafnsögubáturinn Þjótur og fiskibáturinn Jón Forseti sem Gísli Gíslason hafnarstjóri stýrir.

Hópur færeyskra og íslenskra skipasmiða mun koma að viðgerð Sigurfara ásamt fleiri handverksmönnum. Áætlað er að kostnaður við viðgerðina verði 180-200 milljónir króna og hefur nú þegar safnast  um þriðjungur þeirrar upphæðar, einkum í Færeyjum. Formlegri söfnun fyrir kostnaði verður hrundið af stað hér á landi í dymbilviku. Áætlað að viðgerð á Sigurfara taki 13-14 mánuði ogmarkmiðið að kútternum verði aftur siglt seglum þöndum á sjómannadaginn 2018. Kútter Sigurfari var smíðaður árið 1885 og annar af tveimur elstu kútterum sem varðsveist hafa. Hinn er Westward Ho, systurskip Sigurfara, sem smíðað var tveimur árum eftir Sigurfara, eða 1887, en hann er sjö brúttótonnum þyngri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir