Verið að poka hrogn til frystingar í hrognavinnslu HB Granda í Heimaskagahúsinu á Akranesi á nýliðinni loðnuvertíð.

Loðnuvertíðin á enda

Loðnuvertíðinni er lokið hjá skipum HB Granda en Víkingur AK kom með síðasta loðnufarminn til Vopnafjarðar í byrjun vikunnar. ,,Það verður lokið við löndun úr Víkingi í nótt eða í fyrramálið. Í framhaldinu fer skipið til veiða á kolmunna. Venus átti að koma á miðin vestur af Írlandi upp úr kvöldmatarleytinu í gær og hefur hafið veiðar í gærkvöldi,“ segir Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarveiðiskipa HB Granda, í frétt á heimasíðu fyrirtækisins á í gær.

Alls var tekið á móti 38.200 tonnum af loðnu í vinnslu HB Granda á vertíðinni. Að sögn Ingimundar skiptist aflinn þannig að 18 þúsund tonnum var landað á Akranesi en 20.200 tonnum á Vopnafirði. Afli Venusar NS var 14.300 tonn og afli Víkings nam 11.500 tonnum.

Allur loðnuafli sem landað var á Akranesi fór í hrognatöku og frystingu á hrognum og afskurðurinn til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni. Á Vopnafirði fóru 14 þúsund tonn í hrognatöku og hrognafrystingu og þúsund tonn til heilfrystingar. Annað fór í framleiðslu á loðnumjöli og -lýsi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir