Deildarmeistarar Snæfells. Ljósm. karfan.is.

Snæfell tryggði sér deildarmeistaratitilinn

 

Snæfell tryggði sér á föstudag deildarmeistaratitil Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik með góðum útisigri á botnliði Grindavíkur. Eftir erfiða byrjun náðu Snæfellskonur yfirhöndinni í öðrum fjórðungi og héldu forystunni allt til loka. Þær sigruðu með tólf stigum, 65-77.

Grindavík byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 15-4 um miðjan fyrsta leikhluta. Snæfellskonur létu góða byrjun heimaliðsins ekki slá sig út af laginu en komu sér þess í stað hægt og sígandi inn í leikinn að nýju. Áður en upphafsfjórðungurinn var úti höfðu þær minnkað muninn í þrjú stig, 22-19. Grindavík hélt naumu forskoti fram undir miðjan annan leikhluta. Þá komst Snæfell yfir og leiddi með fimm stigum í hálfleik, 37-42.

Eftir hléið réðu Snæfellskonur ferðinni. Þær juku forskotið í ellefu stig um miðjan þriðja leikhluta en Grindavíkurkonur voru hvergi á því að leggja árar í bát. Þær tóku rispu seint í leikhlutanum og minnkuðu muninn í fjögur stig en Snæfell átti lokaorðið og leiddi með sex stigum fyrir lokafjórðunginn, 51-57. Í upphafi hans tók Grindavíkurliðið aftur góðan sprett. Þær gáfu Snæfelli ekkert eftir og minnkuðu muninn í þrjú stig en komust ekki nær. Snæfell svaraði fyrir sig og náði tökum á leiknum. Það sem eftir lifði bættu þær jafnt og þétt stigum á töfluna og munurinn jókst í takt við það. Snæfell sigraði, 65-77 og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn og heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Aaryn Ellenberg var stigahæst leikmanna Snæfells með 32 stig. Þar að auki gaf hún sex stoðsendingar, tók fimm fráköst og stal boltanum fimm sinnum. Berglind Gunnarsdóttir kom henni næst með 26 stig og tók fimm fráköst.

Sigurinn á Grindavík tryggði Snæfellskonum sem fyrr segir deildarmeistaratitilinn. Þær hafa 44 stig á toppi deildarinnar þegar ein umferð er eftir, tveimur stigum fyrir ofan Keflavík sem situr í öðru sæti. Toppliðin tvö mætast í lokaumferð deildarinnar sem fram fer á morgun, þriðjudaginn 21. mars. Keflavík getur ekki komist upp fyrir Snæfell, jafnvel með sigri á morgun, því Snæfell hefur unnið allar þrjár viðureignir liðanna í deildinni hingað til.

Því er sömuleiðis ljóst að Snæfell mætir Stjörnunni í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Úrslitakeppni Domino‘s deildar kvenna hefst 28. mars næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir