Fyrsta byggðin í lok 19. aldar, en myndin er tekin um 1890. Ljósm. varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands, myndhöfundur: Sigfús Eymundsson.

Ljósmyndasýning opnuð á afmæli Borgarness

Miðvikudaginn 22. mars verða 150 ár síðan Borgarnes fékk verslunarleyfi og forsendur urðu þar fyrir myndun þéttbýlis. Þann dag verður opnuð ný sýning í Safnahúsi Borgarfjarðar og hefur hún hlotið heitið „Tíminn gegnum linsuna“. Þar verða sýndar ljósmyndir sem fjórir ljósmyndarar hafa tekið í Borgarnesi á 20. öld. Val á ljósmyndum og textagerð er í höndum sagnfræðingsins Heiðars Lind Hanssonar sem er annar tveggja höfunda að Sögu Borgarness sem kemur út í næsta mánuði. Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahússins segir að sýningin sé ekki síst til komin vegna þess að þegar verið er að skrifa slíka byggðasögu er aldrei hægt að fjalla um allt það efni sem ákjósanlegt væri að hafa í bókinni. „Á sýningunni má sjá um 50 ljósmyndir ásamt undirliggjandi texta, sem ekki komust í bókina en hefðu vel verið þess verðugar,“ segir Guðrún.

Sýningarhönnun annast Heiður Hörn Hjartardóttir. Myndhöfundar á sýningunni eru fjórir, þeir Friðrik Þorvaldsson, Einar Ingimundarson, Júlíus Axelsson og Theodór Kr. Þórðarson

Sýningin verður opnuð kl. 17.00 miðvikudaginn 22. mars og verður húsið opið til 19.00 þann dag, eftir það verður hún opin alla virka daga 13.00 – 18.00. Frá 1. maí verður opið alla daga vikunnar, nánar kynnt á heimasíðu Safnahúss: www.safnahus.is.

Þess má að lokum geta að fyrr að deginum heldur sveitarstjórn Borgarbyggðar hátíðarfund í Kaupangi, elsta húsi Borgarness, kl. 15.00. Að því loknu verður tekin skóflustunga að nýrri viðbyggingu Grunnskólans í Borgarnesi.

Laugardaginn 29. apríl n.k. kl. 15.00 býður svo Borgarbyggð til hátíðardagskrár í Hjálmakletti í Borgarnesi og verður Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands þar viðstaddur. Þar verður útkomu Sögu Borgarness einnig fagnað og verður sýningin Tíminn gegnum linsuna opin í tengslum við þann viðburð.

Frá Borgarnesi síðastliðið sumar. Ljósm. Guðrún Jónsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir