Hrafnhildur Guðmundsdóttir í hesthúsinu á Sturlu-Reykjum.

Bjóða ferðafólki að kynnast íslenska hestinum í návígi

Hrafnhildur Guðmundsdóttir og Jóhannes Kristleifsson á Sturlu-Reykjum í Reykholtsdal eru um þessar mundir að undirbúa opnun ferðaþjónustufyrirtækis í hestatengdri ferðaþjónustu. Mun það bera heitið Visiting HorseFarm. Þar verður tekið á móti ferðamönnum og þeim gefinn kostur á að komast í návígi við íslenska hestinn. Skessuhorn hitti Hrafnhildi að máli á dögunum og fékk að heyra örlítið um væntanlega ferðaþjónustu á Sturlu-Reykjum.

„Þetta er nýjung í ferðaþjónustu. Hér stendur til að taka á móti ferðafólki og bjóða því að kíkja í hesthúsið. Þar getur fólk fengið að klappa hestunum, taka myndir af þeim og aðeins að kynnast þeim í návígi,“ segir Hrafnhildur. „Gengið verður inn í móttöku þar sem fólk getur hengt af sér, fengið sér kaffi og farið á klósettið. Síðan verður smá salur þar sem hægt verður að tylla sér í sófa og á veggjunum verða myndir af hestunum okkar með smá fróðleik um hvern og einn og kannski nokkrir verðlaunagripir. Hugmyndin er að fólki líði eins og það sé mætt heim í stofu, sjái myndir af hrossunum okkar á veggjunum og fari síðan út í hesthús og fái að kynnast þessum sömu hestum í návígi, klappa þeim og taka myndir,“ segir hún.

 

Einföld hugmynd – en þörfin er til staðar

Hrafnhildur segir að ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum verði boðið að nýta sér aðstöðuna og koma við með sína hópa á leið um Borgarfjörðinn. „Við höfum fundið fyrir áhuga hjá ferðaskrifstofum sem vilja nýta sér þessa aðstöðu okkar. Með því að koma hér við væru tvær flugur slegnar í einu höggi. Hópurinn fær að skoða hesta, fær kaffisopa og kemst á klósettið. Ef fólkið stoppar hjá okkur þá er rútan ekki á meðan úti í vegkanti einhvers staðar á meðan ferðafólk freistar þess að ná myndum af hestum í girðingu. Við teljum okkur geta mætt þessari þörf því hvergi hefur verið opnað inn í hesthús með þessum hætti eins og við ætlum að gera,“ segir Hrafnhildur. „Þetta þarf nefnilega ekki að vera flókið. Þessi hugmynd okkar er eiginlega svo einföld að þegar okkur datt þetta í hug þá furðuðum við okkur á að engum hefði dottið þetta í hug fyrr. Það þarf ekki alltaf að vera eitthvað „show“. Ferðamenn hafa ekki síður mikinn áhuga á að líta við og sjá hvernig hlutirnir eru í raun og veru. Þetta á að vera heimilislegt, afslappað, persónulegt en umfram allt raunverulegt. Þess vegna ætlum við bara að taka á móti tiltölulega fáum í einu og heldur ekki hætta að moka út úr stíu eða vinna í hringgerði, ef við erum að því þegar gestirnir koma. Fólki finnst líka gaman að sjá það, því þannig eru hlutirnir í alvörunni,“ segir hún.

 

Stefnt að opnun fyrir sumarið

Byrjað er að leggja nýjan afleggjara upp að hesthúsunum á Sturlu-Reykjum og verið er að útbúa móttökuna. Enn er eftir nokkur jarðvinna í kringum hesthúsin og frágangur. Aðspurð segir Hrafnhildur að þau stefni að því að opna fyrir sumarið. „Okkur liggur hins vegar ekkert á og við gerum þetta bara á okkar hraða, eins og efni og aðstæður leyfa. Við erum í þessu sjálf, höfum enga sjóði á bakvið okkur og verðum að haga seglum eftir vindi. En þannig viljum við hafa þetta og erum frjálsari fyrir vikið,“ segir Hrafnhildur.

Þrátt fyrir að Visiting HorseFarm sé nýjung í ferðamennsku þá eru hjónin bæði margreynd á sviði hestatengdrar ferðaþjónustu. „Ég er frá Bjarnastöðum í Hvítársíðu. Þar er ein elsta hestaleiga landsins, stofnuð árið 1971 af foreldrum mínum. Ég vann hjá þeim lengi og þekki vel til í þessum geira,“ segir Hrafnhildur. „Hér á Sturlu-Reykjum vorum við hjónin síðan með hestaferðir í rúm 20 ár, þar til fyrir þremur árum að við ákváðum að hætta, okkur fannst kominn tími til að breyta til. Það botnaði reyndar enginn í því af hverju við vorum að hætta, því það var alltaf brjálað að gera,“ segir hún og brosir. „En við höfum í gegnum fyrri reynslu mjög gott tengslanet bæði við okkar fyrrum viðskiptavini og við ferðaskrifstofur hér heima og erlendis, sérstaklega í Þýskalandi. Nú þegar okkur langar að byrja aftur, með annars konar hestatengda ferðamennsku, munu þau tengsl koma að góðum notum,“ segir Hrafnhildur.

 

Lúxusferðir upp með Reykjadalsá

Hún segir að samhliða móttöku og heimsóknum í hesthús ætli þau einnig að bjóða upp á lúxushestaferðir þar sem riðið verður upp með Reykjadalsá. „Við sjáum fyrir okkur sérstakar lúxusferðir, upp undir tveggja klukkustunda langar fyrir mjög fáa í senn. Þá allt niður í bara eitt par eða fjölskyldu sem vill fá að ríða út í ró og næði. Þessar ferðir myndum við fara frá byrjun júní og fram í október,“ segir Hrafnhildur og bætir því við að öllum verði boðið upp á leiðsögn og smá kennslu inni í reiðhöll, í upphafi ferðar. „Þegar kemur að hestaferðum er lykilatriði að vera með góð hross og við teljum okkur hafa þau,“ segir hún, en hestar frá Sturlu-Reykjum og í okkar eigu hafa náð góðum árangri í keppni bæði hérlendis og erlendis. „Við höfum verið heppin, bæði átt og fengið að kynnast góðum hestum í gegnum tíðina. Til að mynda voru þrjú hross frá okkur sem kepptu á síðasta heimsmeistaramóti. Þá höfum við bæði keppt á fjölmörgum mótum og sonur minn, Konráð Axel Gylfason, er landsliðsmaður í hestaíþróttum sem lifir og hrærist í þessu eins og við hér heima.“

Hestaáhuginn skín í gegn í máli Hrafnhildar og það er ekki síst sú ástríða sem hún vill reyna að miðla til gesta. „Við fjölskyldan höfum alveg ofboðslega gaman af hestum og höfum haft alla tíð, erum alin upp við hestamennsku og höfum verið í kringum hesta frá barnsaldri. Það er ekkert sem veitir okkur meiri ánægju og nú viljum við skapa tækifæri fyrir annað fólk að upplifa það sem okkur þykir svo ánægjulegt,“ segir Hrafnhildur Guðmundsdóttir á Sturlu-Reykjum að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira