Frændurnir Sigurður Már Sigmarsson og Skarphéðinn Magnússon eftir að hár og skegg þess fyrrnefnda fékk að fjúka að hluta.

Siggi stóðst áskorunina: „Þetta kemur bara vel út“

Skessuhorn greindi frá því í desember síðastliðnum að sjúkraflutningamenn á Akranesi finna sér ýmislegt skemmtilegt að bardúsa á vöktum þegar blessunarlega er lítið að gera í vinnunni. Fannar Sólbjartsson skoraði á vinnufélaga sinn, Skarphéðinn Magnússon, að safna hári í þrjá mánuði. Þar sem Skarpi er sköllóttur og hársöfnun því ekki hans sterkasta hlið ákvað hann að gangast við áskoruninni ef fengjust eitt þúsund læk á mynd sem Fannar birti af honum á Facebook-síðu sinni. Frændi Skarpa og vinnufélagi, Sigurður Már Sigmarsson, lofaði því jafnframt að taka þátt í uppátækinu með því að láta raka af sér hárið að þremur mánuðum liðnum og sína frænda sínum þannig samstöðu.

Skemmst er frá því að segja að lækin þúsund fengust og vel rúmlega það. Á fimmtudaginn síðasta var síðan komið að skuldadögum. Skarpi hafði safnað hári undanfarna þrjá mánuði en hefur lítt orðið ágengt. Siggi skoraðist ekki undan sínum hluta samkomulagsins og var færður í stólinn hjá Helenu Steinsdóttur á Hársnyrtistofunni Hárstúdíó á Akranesi. „Það er smá fiðringur í maganum, ég viðurkenni það alveg,“ sagði Siggi þegar hann settist í stólinn. Því næst dró Helena upp rakvélina og hófst handa. Rakaði hún allt hár af kollinum á Sigga svo ekkert varð eftir nema kragi á hliðunum og hnakka. „Þetta kemur bara vel út, þetta er bara smart,“ sagði Siggi þegar fór að móta fyrir skallanum og félagar hans tóku í sama streng. Því næst veltu þeir því fyrir sér hvort ekki ætti að taka af skegginu líka, eins og þeir höfðu rætt um fyrir heimsókina á hárgreiðslustofuna. „Eigum við að taka skeggið líka?“ spurði Siggi og félagarnir hvöttu hann til þess. „Já, gerum það bara, prófum það. Þetta er hvort eð er farið til helvítis,“ sagði Siggi þá og Helena dró upp rakvélina á nýjan leik og hófst handa við að raka af efri vör hans. „Já, þetta verður ekki betra sé ég,“ sagði Siggi eftir að raksturinn hófst og uppskar við það hlátur viðstaddra.

„Jæja Skarpi, þá er ég næstum því orðinn eins og þú,“ mælti Siggi síðan þegar hann reis upp úr stólnum að klippingu og rakstri loknum. Stilltu þeir félagar sér síðan upp til myndatöku, þökkuðu Helenu fyrir hárskurð og rakstur og héldu á braut, léttir í lundu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Skógardagur í Skorradal

Á morgun, laugardaginn 23. júní, verður haldinn skógardagur í Selskógi í Skorradal. Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja máttarstólpa í skógrækt á... Lesa meira