Keppendur ásamta Ómari Ólafssyni þjálfara, sem er lengst til hægri.

SamVest sendi lið til keppni á Bikarmóti FSÍ

Við í SamVest erum afar stolt yfir því að hafa sent lið til Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands fyrir 15 ára og yngri, sem fram fór sunnudaginn 12. mars í Laugardalshöllinni. Bikarkeppnin er liðakeppni í frjálsum íþróttum, þar sem keppt er í sjö greinum í piltaflokki og sjö greinum í stúlknaflokki, auk boðhlaups. Keppendur eru 15 ára og yngri, en notuð eru áhöld og viðmið eins og um keppni 15 ára sé að ræða.

Bikarliðið okkar samanstóð af átta einstaklingum, fjórum stelpum og fjórum strákum. Keppendur komu að þessu sinni frá HHF, (Patreksfirði og Tálknafirði), HSH með keppendur úr Stykkishólmi og Grundarfirði, UMSB og USK á Akranesi. Þjálfari liðsins á mótinu var Ómar Ólafsson, sem nýlega hóf störf sem frjálsíþróttaþjálfari hjá USK á Akranesi.

Í Bikarkeppninni geta liðin mannað greinar með að hámarki tveimur greinum á hvern keppanda auk boðhlaups. Við vorum með fámennan hóp sem lagði mikið á sig, en öll hin liðin höfðu fleiri keppendum á að skipa í keppnisgreinarnar.

Af þessum 14 greinum voru keppendur í fjórum greinum að keppa í þeim í fyrsta sinn. Í fimm greinum voru þátttakendur að bæta persónulegan árangur sinn. Við fengum fyrsta sæti í einni grein og annað sæti í annarri. Í stigakeppni liðanna lenti piltaliðið okkar í 5. sæti af átta liðum, og stúlknaliðið í 7. sæti af átta liðum.

Það er mikil vinna að setja saman lið, finna krakka til að taka þátt og fyrir þau að koma sér, af Vestfjörðum, Snæfellsnesi og víðar – til keppni í Laugardalshöll.

Við erum afar stolt af þessum krökkum, sem stóðu sig mjög vel og voru samböndum sínum til mikils sóma.

Björg Ágústsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir