Derek Shouse í baráttunni við leikmenn Fjölnis í lokaleik 1. deildar karla á föstudag. Ljósm. jho.

Tap í lokaleiknum hjá ÍA

ÍA mætti Fjölni í lokaleik 1. deildar karla í körfuknattleik að kvöldi síðasta föstudags. Leikið var á Akranesi. Með sigri gat Fjölnir tryggt sér 2. sæti deildarinnar og þar með heimavallarrétt í úrslitakeppninni, sama hversu langt þeir ná í þeirri keppni. Skagamenn höfðu hins vegar að litlu að keppa, myndu enda í 8. sæti deildarinnar óháð úrslitum leiksins.

Fjölnir hafði yfirhöndina allan leikinn en Skagamenn gerðu stöku atlögu að forystu þeirra en höfðu ekki erindi sem erfiði. Fjölnir hafði að lokum öruggan sigur, 81-100.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi og staðan jöfn, 12-12, þegar upphafsfjórðungurinn var hálfnaður. Eftir það náði Fjölnir góðum kafla og þægilegu 14 stiga forskoti fyrir annan leikhluta, 15-29. Gestirnir bættu nokkrum stigum við forskotið áður en Skagamenn tóku við sér og minnkuðu muninn í tíu stig. Sú staða hélst meira og minna óbreytt til hálfleiks. Fjölnir leiddi í hléinu, 40-52.

Í þriðja leikhluta komust gestirnir síðan á góða siglingu. Þeir voru komnir með 20 stiga forskot um miðjan leikhlutann og leiddu með 23 stigum að honum loknum, 55-78. Skagamenn klóruðu í bakkann í lokafjórðungnum en komust aldrei nær en sem nam 14 stigum seint í leiknum. Gestirnir bættu nokkrum stigum á töfluna á lokamínútunum og sigruðu að lokum örugglega, 81-101.

Derek Shouse var atkvæðamestur í liði Skagamanna með 23 stig, 14 fráköst, sex stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Áskell Jónsson var með 19 stig, Jón Orri Kristjánsson með níu stig og níu fráköst og Ármann Örn Vilbergsson skoraði sömuleiðis níu stig en aðrir höfðu minna.

Þegar keppni í 1. deild karla er lokið sitja Skagamenn í 8. og næstneðsta sæti deildarinnar með tólf stig, fjórum stigum frá Fsu og Vestra í sætunum fyrir ofan en langt fyrir ofan botninn. Þar sitja Ármenningar með aðeins tvö stig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir