Íslandspóstur segist spara með skertri þjónustu

Íslandspóstur sendi í janúar síðastliðnum Póst- og fjarskiptastofnun skýrslu þar sem farið er yfir áhrif þess að fækka dreifingardögum póstsendinga í dreifbýli en Póst- og fjarskiptastofnun veitti leyfi til þess í lok ársins 2015. Ákvörðunin byggði m.a. á breytingu sem gerð var á reglugerð um alþjónustu þar sem sett voru ákveðin kostnaðarviðmið fyrir fækkun dreifingardaga í dreifbýli. Í ákvörðuninni var m.a. óskað eftir að fyrirtækið tæki saman skýrslu um endanlegan sparnað fyrirtækisins af breytingunum, sem og helstu vandamál sem upp hafi komið og hvernig Íslandspóstur hafi brugðist við þeim. Sú skýrsla hefur nú verið birt. Þar kemur meðal annars fram að Íslandspóstur áætlar að spara um 200 milljónir króna með fækkun dreifingardaga í dreifbýli. Þá færist það til tekna að mikil fjölgun er á bögglasendingum erlendis frá, meðal annars frá Kína. Töluvert hefur verið kvartað yfir þessari skertu þjónustu og kemur m.a. fram í skýrslunni að áskrifendur Morgunblaðsins sætta sig illa við breytinguna sem felur í sér að þeir fá í mörgum tilfellum nokkurra daga gömul blöð þegar dreifingardagar eru fáir.

 

Sendingar of stórar í póstkassana

Í skýrslu Íslandspósts kemur fram að 1. apríl 2016 var þjónusta í dreifbýli takmörkuð við dreifingu annan hvern virkan dag. „Reiknað var með að spara um 50% af kostnaði við þessa aðgerð og má segja að það markmið hafi náðst frá fyrsta degi. Beinn sparnaður vegna færri vitjana nemur 170 mkr. árlega. Auk þess hefur svigrúm til flokkunar aukist sem leitt hefur til sparnaðar sem erfitt er að setja nákvæma tölu á. Sparnaðar áhrif eru í kringum 200 mkr. árlega,“ segir í skýrslunni. Þá segir einnig að frá því að ákvörðun var tekin um fækkun dreifingardaga í sveitum hefur orðið veruleg aukning í skráðum sendingum á landsvísu. „Þannig voru skráðar sendingar um 20% fleiri á árinu 2016 en árið 2015, mest á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallsleg aukning í dreifbýli er á bilinu 10 – 15% og hefur hún haft nokkur áhrif á ákveðnar akstursleiðir, bæði hvað varðar ferðatíma og rýmisnýtingu í bílum. Aukið magn skráðra sendinga hefur í för með sér að aka þarf heim að fleiri bæjum en áður, þar sem sendingar komast ekki í póstkassa. Þetta leiðir til þess að ferð landpósts tekur lengri tíma sem á lengri leiðum hefur stundum leitt til of langs ferðatíma. Bregðast hefur þurft við þessu á einstaka stöðum með endurskipulagningu landpóstaleiða og aukaferðum í einhverjum tilfellum, m.a. frá miðjum desember síðastliðnum.“

 

Kvartanir færri en búist var við

Kvartanir sem borist hafa Íslandspósti í kjölfar fækkunar dreifingardaga í sveitum, eru aðallega vegna óreglulegra afhendingardaga, þar sem þeir eru ekki þeir sömu milli vikna. Íslandspóstur taldi nauðsynlegt að hafa dreifingarfyrirkomulag með þeim hætti til að jafna út frídaga, sem koma upp, milli landpóstaleiða sem og til að ná auknum sparnaði í rekstri dreifikerfis, þar sem tekjur af rekstri þess nægja ekki til þess að standa undir kostnaði.

„Miðað við umfang framangreindra breytinga er það mat pósthúsasviðs Íslandspósts að framkvæmd þeirra hafi almennt gengið vel. Einnig hefur sú kostnaðarlækkun sem áætluð var gengið eftir. Kvartanir eru mun færri frá móttakendum sendinga en búist var við. Rétt þykir  að taka fram, að Íslandspóstur er vel í stakk búinn til þess að sinna aukinni þjónustu svo framarlega sem tekjur standa undir kostnaði.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Elkem í fjörutíu ár

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni... Lesa meira