Milljarður rís 2017

Í hádeginu í dag var dansað gegn ofbeldi víða um heim, meðal annars á ellefu stöðum á Íslandi. Átak þetta nefnist „Milljarður rís 2017“ og er dansgjörningur til að vekja umræðu gegn ofbeldi á konum sem er vandamál um allan heim. Hér á Vesturlandi var dansað í Frystiklefanum í Rifi og í Hjálmakletti í Borgarnesi. Í ár var dansað til minningar um Birnu Brjánsdóttur sem myrt var í síðasta mánuði.

„Milljarður rís er dansbylting sem haldin er víða um heim. Með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka. Yfir milljarður karla, kvenna og barna kom saman til að dansa fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Óttanum og óörygginu sem konur finna fyrir á götum úti og hvernig þær axla ábyrgð á mögulegu ofbeldi með því að forðast augnsamband, velja ákveðnar götur fram yfir aðrar, halda á lykli milli fingra sinna í annarri hendi og símanum í hinni með 112 á hraðvali er þær ferðast milli staða að kvöld- og næturlagi. Ofbeldi eða ótti við að verða fyrir því er hluti af daglegu lífi kvenna víða um heim. Ofbeldið á sér stað hvenær sem er dagsins, á heimilum, úti á götum, í almenningssamgöngum, á vinnustöðum og í kringum skóla svo dæmi séu nefnd,“ segir í kynningu um verkefnið.

Vel var mætt í hátíðarsal Hjálmakletts í Borgarnesi. Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri bauð fólk velkomið en síðan var byrjað að dansa eftir fjörugum og skemmtilegum lögum. Nemendur og starfsfólk mætti úr Grunnskóla Borgarness, Menntaskóla Borgarfjarðar og þá átti starfsfólks Ráðhússins sterka innkomu. Auk þess voru gestir víðar að enda allir hvattir til að taka þátt og leggja þannig sitt lóð á vogarskálina gegn ofbeldi á konum.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir