Andrée Fares Michelsson og félagar hans í Snæfelli réðu illa við liðsmenn Tindastóls. Ljósm. sá.

Leiðir skildu í öðrum leikhluta

Snæfell mætti Tindastóli í Domino‘s deild karla í körfuknattleik þegar keppni hófst að nýju eftir hlé vegna bikarkeppninnar. Leikið var í Stykkishólmi í gærkvöldi. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn framan af en um miðjan annan leikhluta skildu leiðir og Tindastóll sigraði að lokum mjög afgerandi, 59-104.

Snæfellingar mættu ákveðnir til leiks og staðráðnir í að gefa Tindastóli ekkert eftir. Mikið jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum, sem einkenndist af mikilli baráttu. Tindastóll leiddi með tveimur stigum að honum loknum, 23-25. Í öðrum leikhluta fóru Stólarnir að sækja í sig veðrið. Snæfellsliðið stóð í þeim framan af en eftir miðjan leikhlutann skildu leiðir endanlega. Með góðum leikkafla náðu gestirnir afgerandi forystu og leiddu með 17 stigum í hálfleik, 34-51. Munaði Tindastól þar mest um Antonio nokkurn Hester, sem þegjandi og hljóðalaust setti niður hvorki fleiri né færri en 30 stig í fyrri hálfleiknum.

Leikurinn var einstefna eftir hléið þar sem gestirnir frá Sauðárkróki réðu lögum og lofum inni á vellinum. Eftir þriðja leikhluta höfðu þeir aukið forskot sitt í 31 stig, leiddu 48-79 fyrir lokafjórðunginn. Það sem eftir lifði leiks bættu þeir enn við forystuna og þegar lokaflautan gall munaði 45 stigum á liðunum. Snæfellingar urðu að játa sig sigraða með 59 stigum gegn 104.

Andrée Fares Michelsson var stigahæstur í liði Snæfells með 16 stig. Árni Elmar Hrafnsson skoraði tólf stig og tók sjö fráköst en aðrir höfðu minna.

Fyrrnefndur Antonio Hester átti stórleik fyrir Tindastól, skoraði 43 stig og tók ellefu fráköst.

Snæfell situr á botni deildarinnar og er enn án stiga eftir 17 leiki. Í næstu umferð mætir liðið Skallagrími í Vesturlandsslag í Borgarnesi sunnudaginn 19. febrúar næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir